Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, er líklegur til að hljóta hinn eftirsótta titil markaðsmaður ársins. Með því myndi hann skipa sér í fríðan flokk með áhrifafólki á borð við Gerði Arinbjarnardóttur, eiganda stoðtækjaverslunarinnar Blush.

Týr telur að Birgir eigi útnefninguna skilið fyrir hinn stórfurðulega feluleik með greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols, og væntingastjórnun þingforsetans í tengslum við það mál allt saman.

***

Eins og flestir vita birti Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, greinargerð Sigurðar á dögunum. Það fór vel á því að Þórhildur tæki verkið að sér, enda hefur hún verið frumkvöðull á þingi og var til að mynda fyrsti þingmaður sögunnar sem gerðist brotlegur við siðareglur þingsins.

Týr hefur lesið greinargerð setts ríkisendurskoðanda. Þar kemur ekkert fram sem hefur ekki komið fram áður. Það er að segja annað en það að settur ríkisendurskoðandi er ekki síðri en sá sem nú starfar í að stinga puttanum út í loftið og ákvarða verðmat fyrirtækja með svo nákvæmum hætti að undrum sætir.

***

Eigi að síður hefur settur ríkisendurskoðandi sent skýrsluna til ríkissaksóknara. Hann hefur reyndar ekki svarað hvaða meinta glæp hann sé að upplýsa um og hvaða lög hafi verið brotin. Og ekki hefur hann svarað augljósri spurningu um hvers vegna hann sendi gögnin til ríkissaksóknara fimm árum eftir að þau lágu fyrir.

***

Greinargerð setts ríkisendurskoðanda er ágætt dæmi um mál sem flautaþyrlar og pólitískir vindbelgir nota til að blása upp moldviðri. Leyndarhyggjan kringum þessa ófullkomnu greinargerð hefur vissulega skapað aðstæður til þess. Það breytir ekki þeirri staðreynd að ekkert hefur komið fram sem grefur undan niðurstöðum endanlegrar skýrslu þáverandi ríkisendurskoðanda og að sama skapi er rekið dómsmál vegna viðskipta Lindarhvols. Þau verða á endanum til lykta leidd. Upphlaup eru ótímabær þar til annað kemur í ljós.

Týr er fastur dálkur í Viðskiptablaðinu og vb.is.