Fyrir nokkrum árum voru stórlaxar í viðskiptum tíðir gestir á síðum blaðanna. Oftar en ekki áttu þeir að hafa tekið einhverskonar snúninga eða fléttur og efnast ógurlega. Á endanum var það almúginn sem sat uppi með reikninginn.

Mér varð hugsað til þeirra þegar ég gluggaði í héraðsdóm í liðinni viku. Þar hafði mennta- og barnamálaráðherra orðið fyrir barðinu á sálarlausum starfsmönnum bankanna og sýslumanns, sem höfðu haft af henni húsið og haft rangt við í endurreikningi vaxta, svo hún bar skarðan hlut frá borði.

Ráðherrann lét hafa eftir sér að hún hefði gjörsamlega misst trúna á íslenska dómskerfið í kjölfar þessara hrakninga. Dómsmálaráðherra sagði við þetta tækifæri að það væri nú eðlilegt að láta svona lagað frá sér í hita leiksins.

Til að klykkja út ákvað svo hinn sálarlausi banki að selja ráðherranum húsið til baka á 12 ára gömlu nafnverði.

Þegar ég las lengra í dómnum fóru að renna á mig tvær grímur. Erlend lán voru reiknuð yfir í íslensk og lækkuð. Varla var það nú slæmt. Ráðherrann hætti síðan að greiða af lánunum í nokkur ár. Það hljómar ekki heldur illa. Húsið var síðan selt á uppboði og hún fékk að leigja það. Skuldir upp á tugi milljóna voru afskrifaðar. Gott ef það skilaði sér ekki eitthvað smáræði á sparireikninginn í kjölfar uppboðsins. En ekki nægilega mikið að hennar mati.

Til að klykkja út ákvað svo hinn sálarlausi banki að selja ráðherranum húsið til baka á 12 ára gömlu nafnverði. Það er nú ekki fallega gert þegar öllum landsmönnum stendur til boða að kaupa einbýlishús á að minnsta kosti 20 ára gömlu nafnverði. Ekki nei?

Hver var það annars sem tók snúning á hverjum í þessari fléttu?

Það hlýjar mér samt um hjartarætur að vita að ágóðinn er eflaust öruggur inni á neyðarsjóðsreikningi fjölskyldunnar.