Ólafur Arnarson, sjálfskipaður blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar og pistlahöfundur á DV, hefur miklar áhyggjur af ítökum Ísfélagsins í íslensku efnahagslífi.

Í pistli á DV sem birtist um helgina lýsir hann þessum áhyggjum sínum. Þar segir hann meðal annars að ómögulegt sé að gera innkaup til heimilisins án þess að versla með einum eða öðrum hætti við eigendur Ísfélagsins. Bendir hann meðal annars á vörumerki á borð við Kims-snakkið, Frónkexið, norska Mexíkógumsið frá Santa Maria, Findus-grænmetisborgarana að ógleymdu Myllukartöfluhamborgarabrauðunum og frosnu pitsunum frá góðdoktornum Oetker máli sínu stuðnings.

Týr telur að þessi upptalning segi meira um neysluvenjur Ólafs en um umsvif eigenda Ísfélagsins í íslensku atvinnulífi. Sameiginlegt eigið fé Ísfélagsins og annarra fyrirtækja eigenda þess nemur rétt ríflega einu prósenti af heildar eigin fé viðskiptahagkerfisins. Ljóst er að slá þarf í klárinn eigi þeim að takast að nota hagnaðinn af útgerðinni til að kaupa upp íslenskt efnahagslíf.

***

Annars vekur hið mikla offors stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar gagnvart sjávarútveginum athygli Týs. Einn þeirra sem ræður ekki við sig af bræði þegar talið berst að sjávarútveginum er Gauti B. Eggertsson, hagfræðingur við Brown-háskóla.

Hann jós úr skálum reiði sinnar um helgina á samfélagsmiðlum og fór ófögrum orðum þá sem stunda útgerð hér á landi. Tilefnið var grein sem Dagur bróðir hans hafði birt um áform ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda. Hrósaði hann Degi hástert fyrir vönduð skrif sem flestir rekja til Gauta sjálfs. Týr dáist að svo frumlegu birtingarformi sjálfhverfu.

En Gauti segist ekki getað verið jafn sanngjarn og málefnalegur og bróðir hans þegar kemur að starfsumhverfi sjávarútvegsins. Ástæðan sé að í honum renni „ólgandi og hamslaust vestfirskt blóð“ og hreinlega blöskrar að einhver bendi á að breytingar á skattaumhverfi greinarinnar kunni að leiða til breytinga sem verði á endanum ekkert sérlega þjóðhagslega hagkvæmar.

Umræðan um áform ríkisstjórnarinnar verður ekki sérstaklega gagnleg ef þetta er það sem koma skal frá hagfræðimenntuðum fræðimönnum í stuðningshóp ríkisstjórnarinnar.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 2. apríl 2025.