Á síðustu árum hefur Evrópusambandið (ESB) unnið markvisst að þróun regluverks í tengslum við orku- og loftslagsmarkmið þess fyrir árið 2030 sem og markmið um að álfan verði kolefnishlutlaus árið 2050.

Ekki eru nein teikn á lofti um að eitthvað sé að hægja á þróuninni heldur þvert á móti. Helsta ástæðan er sú efnahagslega áhætta sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér og gríðarlegur kostnaður sem hlýst af beinum og óbeinum afleiðingum þeirra sem einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og ríki hafa þurft og munu þurfa að bera í nánustu framtíð.

Mikilvægt er fyrir íslenskt atvinnulíf að fylgjast með þeim tillögum sem unnið er að enda ratar regluverkið hingað til lands í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Annar mikilvægur hvati er að þessi þróun er farin að birtast í auknum mæli í grænum lánveitingum til íslenskra fyrirtækja, sem við sjáum fara ört vaxandi.

Samræmdur rammi um græna atvinnustarfsemi

Einn liður í þessari vinnu ESB í átt að því að ná loftslagsmarkmiðum sínum er að búa til umgjörð eða ramma sem ætlað er að beina fjárfestingum í farveg sjálfbærari atvinnustarfsemi og fjármagna vöxt til lengri tíma litið.

Á síðustu árum hefur færst í aukana að fyrirtæki leitist við að draga fram umhverfisvæna þætti í starfsemi sinni og kynnt hagaðilum, m.a. fjárfestum. Þar sem skort hefur á samræmd viðmið á því hvað telst umhverfisvænt eða sjálfbært getur það gert hagaðilum erfitt fyrir að meta frammistöðu fyrirtækja á þeim sviðum.

Til að bregðast við þessu hefur ESB samþykkt nýja reglubálka sem eiga að gera slíka upplýsingagjöf samanburðarhæfa. Einn af þessum reglubálkum er flokkunarkerfi ESB, einnig þekkt sem EU taxonomy, sem tók gildi á Íslandi 1. júní 2023. Flokkunarreglurnar eru jafnframt samtvinnaðar öðrum reglubálkum ESB, þar á meðal reglum um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja, reglur um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (einnig þekkt sem SFDR, innleidd á Íslandi með lögum nr. 25/2023) og væntanlegum staðli um græn skuldabréf ESB.

Ekki meitlað í stein – þróast með tímanum og nýrri tækni

Flokkunarkerfið er ávöxtur umfangsmikillar vinnu ESB á síðustu árum þar sem skilgreint hefur verið hvaða verkefni og atvinnustarfsemi teljist umhverfislega sjálfbær. Með flokkunarkerfinu hefur nú verið skapað kerfi byggt á vísindalegum grunni, eins konar „grænn listi“. Því er ætlað að auka gagnsæi og hjálpa fjárfestum, fyrirtækjum og öðrum hagaðilum að sjá hversu umhverfisvæn tiltekin atvinnustarfsemi er, m.a. til að auðvelda þeim að taka upplýstar fjárfestingarákvarðanir. Markmiðið er einnig að skapa hvata fyrir fyrirtæki til að undirbúa og innleiða græna umbreytingu í starfsemi sinni, jafnframt því að vinna gegn svokölluðum grænþvotti.

Með innleiðingu reglubálka ESB hér á landi mun upplýsingagjöf íslenskra fyrirtækja taka breytingum og færast inn í samræmdan og þekktan ramma sem mun vafalaust fela í sér tækifæri fyrir bæði fyrirtæki og fjárfesta.

Evrópusambandið uppfærir með reglulegum hætti hvaða starfsemi fellur undir flokkunarkerfið á hverjum tíma svo það endurspegli framþróun og tæknibreytingar. Liður í því er að eiga í samtali við atvinnulífið og fleiri aðila um þróun þess og eru dæmi um að íslensk fyrirtæki hafi sent umsagnir inn í þá vinnu. Frekari breytingar eru einnig í samþykktarferli hjá ESB þar sem „græni listinn“ hefur verið unninn áfram og fleiri flokkum atvinnustarfsemi hefur verið bætt við flokkunarkerfið og því breytt. Flokkunarkerfið verður því í stöðugri þróun næstu árin en verður ekki meitlað í stein.

Upplýsingagjöf íslenskra fyrirtækja

Íslensk fyrirtæki sem flokkast sem stór fyrirtæki samkvæmt ársreikningalögum, eru með verðbréf sín skráð á markað eða starfa í tilteknum atvinnugreinum ber að greina árlega frá því hversu stórt hlutfall af veltu þeirra, fjárfestingarútgjöldum og rekstrarútgjöldum falla undir flokkunarkerfið (eru taxonomy eligible).

Þau þurfa jafnframt að framkvæma mat á því hvort starfsemi þeirra stuðli verulega að einu eða fleiri af umhverfismarkmiðum flokkunarreglugerðarinnar og sömuleiðis að meta hvort starfsemin valdi umtalsverðu tjóni á einhverjum af umhverfismarkmiðum reglugerðarinnar.

Tæknileg viðmið hafa jafnframt verið útfærð sem lögð skulu til grundvallar við matið. Þar að auki þarf að uppfylla svokallaðar lágmarks verndarráðstafanir sem varða m.a. vernd mannréttinda í starfseminni og aðgerðir til að vinna gegn spillingu. Með innleiðingu reglubálka ESB hér á landi mun upplýsingagjöf íslenskra fyrirtækja taka breytingum og færast inn í samræmdan og þekktan ramma sem mun vafalaust fela í sér tækifæri fyrir bæði fyrirtæki og fjárfesta.