Þegar þetta var skrifað voru flugumferðarstjórar í harðri samkeppni við Trölla og Ebeneser Skrögg um hver geti skemmt jólin fyrir sem flestum.
Týr telur einsýnt að þeir fyrrnefndu beri sigur úr býtum í þeirri keppni enda segir sagan að kærleikur jólanna hafi tilhneigingu til að verða sjálfselsku þeirra síðarnefndu
yfirsterkari.
Þegar Sólveig Anna Jónsdóttir og félagar hennar fóru í sitt reglubundna verkfall fyrr á árinu áttuðu flestir sig á að breyta þarf fyrirkomulagi kjaraviðræðnanna. Það verður ekki lengur við unað að óábyrgir skemmdarvargar haldi kjaraviðræðum í heljargreipum með því að neita að taka þátt í atkvæðagreiðslum eins og í ljós kom í Eflingarverkfallinu á útmánuðum.
Það blasir við að ríkissáttasemjari verður að hafa heimild til að láta greiða atkvæði um miðlunartillögur sínar líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Með slíkri heimild hefði ríkissáttasemjari getað stigið inn og skorið á hnútinn í þessari óskiljanlegu vinnudeilu efnamanna úr stétt flugumferðarstjóra. Væri slíkt geðugra úrræði en það að stjórnvöld setji lög á vinnudeiluna sem virðist óumflýjanlegt þegar þetta er skrifað.
***
Slíkt frumvarp var samþykkt í þingflokkum stjórnarflokkanna í vor. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kaus Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra að leggja það ekki fram á þingi. Það gerði hann að ósk ófriðaraflanna innan verkalýðshreyfingarinnar.
Það voru dýrkeypt mistök eins og komið hefur á daginn.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Pistillinn kom út í heild sinni í blaðinu sem kom út 20. desember og má lesa í heild sinni hér.