Heimildin – rannsóknarsetur íslenskra fjölmiðla – birti yfirgripsmikla úttekt um íbúa Garðabæjar og Seltjarnarness í síðustu útgáfu sinni. Umfjöllunin þekur heilar tólf blaðsíður og tónn þess sem koma skal er sleginn í fyrirsögninni: Rík elíta í einbýlishúsum, með húshjálp og keyrir um á Teslu.

Í greiningu Heimildarinnar gegna íbúar Garðabæjar og Seltjarnarnes sama hlutverki og huldufólkið í þjóðsagnaarfinum. Óræðar verur, mishollar mönnum, sem búa í glæstum en huldum húsakynnum. Og þó svo þær séu alla jafnan ósýnilegar hefur einstaka dauðlegum manni, jafnvel rannsóknarblaðamanni, hlotnast að gægjast inn í undursamlega sali þeirra á Eiðistorgi og við Garðatorg, sem tjaldaðir eru purpura og pelli. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja, en á kvöldin svigna veisluborðin undan ódáinsveigum og gullbúðingi á meðan huldufólkið á Teslunum skemmtir sér við söng og dans og svo lágt útsvar að undrum sætir.

Úttektin hefur ekkert með blaðamennsku að gera. Þetta er pópulísk stjórnmálabarátta byggð á fremur ógeðfelldri sýn þar sem ákveðið fólk er tekið út fyrir sig og því stillt upp við vegg til að alþýðan geti virt fyrir sér aurapúkana sem sýgur til sín verðmætin á kostnað almenning og neitar að bera sömu byrðar og aðrir. Þetta er gamalkunnugt stef sem oft hefur verið kveðið á meginlandi Evrópu með skelfilegum afleiðingum og fæstum þykir til eftirbreytni.

Úttekt Heimildarinnar er sett fram í gervi einhvers konar rannsóknar á efnahagslegri stöðu íbúa í sveitarfélögum landsins. Rannsóknin felst í því að nota gagnagrunn Hagstofunnar til að reikna út meðaltal fjármagnstekna eftir búsetu.

Niðurstaða Heimildarinnar er að meðaltal fjármagnstekna íbúa í Garðabæ og Seltjarnarnesi árið 2021 hafi verið tæplega 1,6 milljón á meðan að meðaltal fjármagnstekna á landinu öllu var ríflega 700 þúsund krónur. Þessi niðurstaða fær rannsóknarblaðamenn Heimildarinnar til að rannsaka þessi huldusamfélög þar sem smjör drýpur á hverju strái ef trúa má umfjöllun miðilsins. Heimildin nefnir reyndar ekki að fjármagnstekjur íbúa fjöldamargra sveitarfélaga var mun hærra viðkomandi ár. Má í því samhengi nefnda íbúa Snæfellsbæjar, Vestmannaeyja, Árneshrepps og Grýtubakkahrepps. Fjármagnstekjur íbúa Svalbarðshrepps og Kjósarhrepps voru svipaðar og í Garðabæ og Seltjarnarnesi.

Látum það liggja milli hluta að meðaltal í þessu samhengi segir takmarkaða sögu og gagnlegra væri að notast við miðgildi. Á hvorn mælikvarða sem er sést að íbúar í Garðabæ og Seltjarnarness eru með hærri fjármagnstekjur en gengur og gerist. Gefur það tilefni til að draga einhverjar ályktanir um alla þá sem þar búa? Svarið við þeirri spurningu er afdráttarlaust nei.

Það er ekkert sérstaklega fréttnæmt að fólk sem hefur ágætar tekjur og á eignir kjósi að búa í einbýlum. Sú staðreynd að hátt hlutfall eigna í þessum tveimur bæjarfélögum eru sérbýli hlýtur að skýra að þeir sem hafa sem þar búa hafa það ágætt í efnahagslegum skilningi. Er það álíka fréttnæmt og að ekkert lát sé á hundahaldi í sveitum landsins. Kæmi einhverjum á óvart ef að gögn sýni íbúar í einbýlishúsum í Fossvogsdal hafi meiri fjármagnstekjur en íbúar í blokkunum þar í kring? Gæfi sú staðreynd tilefni til þessa að draga miklar ályktanir um íslenskt samfélag?

Rannsóknarblaðamenn Heimildarinnar hefðu alveg eins getað leikið sér með gögn Hagstofunnar og sýnt fram á að fylgni er á milli fjármagnstekna og aldurs og menntunar. Vart gefur sú framsetning tilefni til að spinna sagnaþráð og hina miklu efnahagslegu gjá sem klýfur Íslendinga eftir aldri og menntun. Slíkt væri beinlínis kjánalegt.

Eigi að síður virðist höfundum mikið í mun að sannfæra lesendur um að í Garðabæ og Seltjarnarnesi búi sérstakur þjóðflokkur sem skari öld að eigin köku og sé í litlum tengslum við þann napra og litlausa veruleika sem blasir við þeim sem ekki leggja leið sína daglega um Eiðistorgið og Garðatorgið. Þannig skrifar Þórður Snær Júlíusson annar af ritstjórum Heimildarinnar og einn af höfundum úttektarinnar:

„Fjármagnstekjur eru þær tekjur sem einstaklingar hafa af eignum sínum. Þær eru vextir, arður, söluhagnaður eða leigutekjur af lausafé og af útleigu á fasteignum. Þeir sem fá mestar fjármagnstekjur á Íslandi eru því sá hópur einstaklinga sem á flest hlutabréf og flestar fasteignir. Sá hópur sem hefur sankað að sér flestum eignum. Einungis níu prósent þeirra sem telja fram til skatts á Ísland fá yfirhöfuð fjármagnstekjur. Því er um nokkuð skýrt afmarkaðan elítuhóp að ræða.“

Hvernig ritstjórinn kemst að þeirri niðurstöðu að einungis níu prósent framteljenda hafi fjármagnstekjur er rannsóknarefni. Staðreynd málsins er sú að hópur þeirra sem hafa fjármagnstekjur eru mun stærri og dreifist um öll byggðarfélög Íslands ólíkt því sem haldið er fram í Heimildinni. Vilji menn fræðast meira um fjármagnstekjur og dreifingu þeirra er Tíund – fréttabréf Skattsins – gagnlegri en Heimildin í þessu samhengi að minnsta kosti.

Í greininni Niðurstaða álagningar einstaklinga 2021 eftir Pál Kolbeins kemur fram að flestar fjölskyldur hér á landi hafi einhverjar fjármagnstekjur. Skatturinn er 22% en að sama skapi er frítekjumark í kerfinu.

Þetta er hluti úr Fjölmiðlapistli sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pistilinn í heild sinni hér.