Verðmætasköpun íslensks hugverkaiðnaðar hefur verið gríðarleg síðustu ár. Tekjur hugverkaiðnaðarins í ár verða yfir 300 milljarðar króna og eftir fimm ár 600 milljarðar. Til samanburðar eru tekjur sjávarútvegsins í ár um 400 milljarðar.

Hagkerfið okkar hefur undanfarna áratugi einkum verið auðlindadrifið og byggt á þremur stoðum sem skilað hafa auknum lífskjörum: Sjávarútvegi, stóriðju og ferðaþjónustu. Samhliða varð til vísir að hugverkaiðnaði og fyrstu stóru hugverkafyrirtækin urðu til sem mörg áttu sínar rætur í auðlindahagkerfinu eins og t.d. Marel.

Með aukinni tækni og velferð fer meðalaldur þjóðarinnar hækkandi - sem er mikil gæfa. Tæknin sem lyf og lækningartæki byggja á verður hins vegar sífellt flóknari og dýrari. Fæðingartíðni fer svo minnkandi, þannig að hlutfallið milli skattgreiðenda og þeirra sem eldri eru fer síversnandi. Þetta þýðir að ríkið þarf meiri og meiri skatttekjur til að standa undir velferðarkerfinu.

Ég hef stundum sagt auðlindahagkerfið með sínar þrjár stoðir vera Ísland 1.0 – það er heilmikill kraftur í Íslandi 1.0 og gnótt náttúruauðlinda sem við getum sótt frekari vöxt í. Dæmi um slíkt er fiskeldi í sjó og á landi.

Vestfirska efnahagsævintýrið

Öflugur vöxtur í sjóeldi mun skila Íslandi yfir 50 milljörðum í skatta og gjöld árlega eftir fimm ár, sem slagar hátt í það sem kostar að reka Landspítalann árlega. Vöxtur í sjávarútvegi, fiskeldi og tilkoma Kerecis á Vestfjörðum hefur skapað þar sannkallað efnahagsævintýri, með fólksfjölgun og stórefldu menningar- og atvinnulífi. Sátt virðist hafa skapast um fiskeldið og það var mikill léttir að ekki einn einasti eldislax veiddist í okkar fallegu laxveiðiám í sumar.

Ísland 2.0 byggir á öflugri og vaxandi nýtingu auðlinda auk nýrrar stoðar hugverkaiðnaðar, þar sem nýsköpun, frumkvöðlastarf og hvetjandi starfsskilyrði knýja verðmætasköpun, fjölbreytni og velsæld.

Ísland 2.0: Land auðlinda og hugverka

Nú er svo komið að hugverkaiðnaðurinn er ekki lengur vísir, heldur orðinn að öflugri stoð atvinnulífsins og þar með efnahags íslensku þjóðarinnar. Í Íslandi 2.0 virkjum við auðlindir sköpunarkrafts og hugvits á sviði upplýsingatækni, líf- og heilbrigðistækni, örtækni og hönnunar. Með þessari fjórðu stoð eru til komnir fjölbreyttari atvinnuhættir sem dreifa áhættu þannig að efnahagslegur stöðugleiki þjóðarbúsins eykst.

Ísland 2.0 endurspeglar hvernig aukin og bætt auðlindanotkun, nýsköpun, frumkvöðlastarf og hvetjandi starfsskilyrði knýja verðmætasköpun og velsæld. Sem fjórða stoðin gegnir hugverkaiðnaður sífellt stærra hlutverki í íslensku efnahagslífi, til aukinnar gjaldeyrisöflunar þjóðarbúsins.

Hvatar til fjárfestinga mikilvægir

Fjölbreyttari atvinnuhættir kalla á framsýni stjórnvalda. Lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem sett voru árið 2009 greiddu götu ríkulegra fjárfestinga í rannsóknar- og þróunarstarfi. Skilvirkt rekstrarumhverfi og hvatar til fjárfestinga hafa eflt samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og öflug fyrirtæki í hugverkaiðnaði hafa orðið til. Það er sókn án kvóta.

Eitt þessara fyrirtækja, Kerecis, nýsköpunarfélag á sviði líf- og heilbrigðistækni með höfuðstöðvar á Ísafirði, skilar í ár um 30 milljörðum króna í framleiðsluverðmæti með verulegum vexti milli ára. Verði rekstrarumhverfi áfram samkeppnishæft er fyrirsjáanlegt framhald á vexti tekna og starfa.

Komandi þing og ríkisstjórn

Stefnumörkun stjórnvalda hefur átt mikilvægan þátt í hinum hraða vexti fjórðu stoðarinnar. Þar hafa m.a. komið til skattaívilnanir og öflugt stoðkerfi Rannís. Ánægjulegt var á dögunum þegar Alþingi staðfesti óbreyttar ívilnanir fyrir fyrirtæki í hugverkaiðnaði. Þetta er stefna sem styður við áframhaldandi vöxt hugverkaiðnaðarins og eykur fyrirsjáanleika til fjárfestinga og vaxtar. Og það mun skila arði: Hver króna sem Kerecis sem hefur notið í slíkum opinberum stuðningi hefur t.d. skilað yfir 10 krónum í skatttekjur auk annars samfélagslegs virðisauka.

Verkefni komandi þings og ríkisstjórnar er að standa vörð um áframhaldandi kröftuga nýtingu auðlinda okkar og viðhalda stöðugri umgjörð og hvötum til nýsköpunar. Menntakerfið þarf að efla þannig að stöðugt verði til öflugir árgangar iðn-, verkfræði, heilbrigðis- og tæknimenntaðra. Jafnframt þurfum við að mæta alþjóðlegri samkeppni um mannauð og fjárfestingar í rannsóknum og þróun af krafti með réttu rekstraumhverfi, frelsi og framsýni.

Með aukinni og bættri sókn í auðlindir okkar, t.d. þörunga, hafstrauma, varmamun og fullnýtingu sjávarafurða, ásamt áframhaldandi vexti í hugverkaiðnaði munu verða til miklar nýjar skatttekjur sem staðið geta undir þeirri gríðarlegri kostnaðaraukningu sem framundan er í rekstri velferðarkerfisins. Sem burðarásar íslensks efnahagslífs mun auðlindanotkunin og hugverkaiðnaðurinn standa undir kröftugri verðmætasköpun, auknum útflutningi og bættum lífskjörum. Það veit á gott.

Greinin birtist í tímaritinu Áramót, sem kom út á dögunum. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.