Þeir sem buðu sig fram í forsetakosningunum í sumar hafa verið að skila bókhaldsgögnum til Ríkisendurskoðunar undanfarnar vikur.

Af þeim gögnum sést glögglega að það eru einungis auðugir ríkisstarfsmenn eða úrvalsdeildarfólk í alþjóðlegu atvinnulífi og náið samverkafólk Richards Branson sem hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa straum af slíkri kosningabaráttu.

Þannig kostaði framboð Katrínar Jakobsdóttir, fyrrum forsætisráðherra, 57 milljónir og framboð Helgu Þórisdóttur, framkvæmdastjóra Persónuverndar, tæpar 18 milljónir króna. Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri eyddi 27 milljónum króna. Framboð Höllu Tómasdóttur kostaði um 26 milljónir. Miðað við hvað ríkisstarfsmönnum fjölgar hratt telja hrafnarnir einsýnt að enn fleiri framboð en síðast muni koma fram næst þegar háð verður barátta um kjör forseta lýðveldisins.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 11. september 2024.