Forsetinn Guðni Th. Jóhannesson og forsetafrúin Eliza Reid lögðu land undir fót í síðustu viku og fóru í opinbera heimsókn langt frá heimkynnum sínum á Bessastöðum. Áfangastaðurinn var höfuðborgin Reykjavík þar sem Dagur B. Eggertsson og eiginkona hans Arna Dögg Einarsdóttir tóku á móti forsetahjónunum.

Að móttöku lokinni fylgdu borgarstjórahjónin forsetahjónunum upp í efri byggðir borgarinnar. Komið var við í Breiðholtsskóla, leikskólanum Ösp, fundað með unglingum í Austurbergi og sendiherrum „ólíkra málhópa“ í Gerðubergi. Þau fengu að leika listir sínar á fimleikaæfingu eldri borgara í Árbæ og skoðuðu svo nýja hverfismiðstöð í Úlfarsárdal.

Eftir að hafa hitt alla skemmtilegu krakkana í borgarstjórn á Kjarvalsstöðum fengu forsetahjónin svo að gæða sér á hátíðarkvöldverði í Höfða í boði borgarstjóra.

Forsetahjónin hafa greinilega lesið fréttir Viðskiptablaðsins um verulegan ferðakostnað þingmanna, borgarfulltrúa og embættismanna á vegum hins opinbera, á kostnað skattgreiðenda, og því ákveðið að færa opinberar heimsóknir innanlands.

Hrafnarnir hvetja opinberu starfsmennina til að feta í fótspor forsetahjónanna og sækja heldur ráðstefnur og málstofur í nærumhverfinu, enda af nægu að taka.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.