Týr, vinnufélagi hrafnanna hér á Viðskiptablaðinu, hefur lýst yfir velþóknun á framboði Helgu Þórisdóttir forstjóra Persónuverndar til forseta Íslands.

Hrafnarnir taka undir með Tý.  Ríkisstarfsmaður eins og Helga sem enginn þekkir er að gera eitthvað rétt.  Annars vöktu ummæli Helgu í fréttatíma Stöðvar 2 á mánudag athygli hrafnanna.

Þar sagði Helga, hvers fylgi mælist vart í könnunum, að hún hefði átt von á meiri stuðningi úr opinbera geiranum. Hrafnarnir velta fyrir sér hvað Helga á við með þessu? Átti hún von á því að Páll Gunnar Pálsson lýsti yfir stuðningi við framboð hennar fyrir hönd Samkeppniseftirlitsins og að Byggðastofnun beitti sér fyrir framgangi hennar?

Annars segir það meira en mörg orð um stöðu mála hér á landi að Baldur Þórhallsson, Halla Hrund Logadóttir og Katrín Jakobsdóttir sem mælast með mest fylgi í könnunum eru allt opinberir starfsmenn með einum eða öðrum hætti.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrir í blaðinu sem kom út 23. aprí 2024.