Undanfarin ár hafa reynst vandasöm fyrir hagstjórn í landinu fyrir nokkrar sakir: heims­faraldur, stríð í Evrópu og ítrekuð eldgos nærri byggð hafa sett sitt strik í reikninginn. Eftir snöggan efnahagssamdrátt í heimsfaraldrinum tók hagkerfið svo kröftuglega við sér, sem skapaði tímabundna spennu í þjóðarbúinu. Framangreind atriði hafa ekki síst flækt fram­kvæmd peningastefnunnar, sem hefur verið mikið á milli tannanna á fólki vegna hárrar verðbólgu og vaxta.

Eftir langt tímabil hárra raunvaxta er strangt taumhald peningastefnunnar farið að skila árangri. Verðbólga hefur hjaðnað, hægst hefur á hagvexti og spenna á vinnumarkaði hefur minnkað, þrátt fyrir að blikur séu enn á lofti á opinbera hluta hans. Í október síðastliðnum birtust síðan eftirfarandi orð frá Kalkofnsvegi í fyrsta sinn í tæp fjögur ár: „Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans."

Þessi ákvörðun markaði tímamót eftir 14 samfelldar vaxtahækkanir og ár af óbreyttum stýrivöxtum. Vaxtalækkunarferlið var hafið, þó að fyrstu skref væru varfærin. Síðan þá hefur lækkunarferlið haldið áfram enda hefur dregið úr undirliggjandi verðbólgu og útlit fyrir áframhaldandi hjöðnun hennar á næstu mánuðum. Fullt tilefni er til bjartsýni þó enn sé óráðið hversu torveld leiðin til lágra vaxta reynist, enda eru raunvextir enn um 4%.

Stöðugleiki er forsenda framfara

Stöðugleiki í efnahagsmálum er forsenda samkeppnishæfni, verðmætasköpunar og góðra lífskjara. Ef stjórnvöld vilja tryggja áframhaldandi lífskjarabata verður hagstjórnin að vera í lagi. Stjórnvaldsaðgerðir sem vinna gegn aðhaldsaðgerðum Seðlabankans valda óstöðugleika og torvelda baráttuna gegn verðbólgunni. Jafnvægi í ríkisfjármálum er því ekki einungis skammtímamarkmið heldur lykill að sjálfbærri hagstjórn til lengri tíma litið.

Þótt verðbólga hafi minnkað hafa ríkisfjármálin verið viðvarandi veikleiki. Aðhald ríkisins hefur lengi verið ófullnægjandi og boðaðar sparnaðaraðgerðir hafa oft ekki dugað til að draga úr spennu í hagkerfinu. Að óbreyttu verður árið 2025 sjöunda árið í röð þar sem ríkissjóður er rekinn með halla. Því er mikilvægt að stjórnvöld fylgi eftir samráðsferlinu um hagsýni í rekstri ríkisins og tryggi að næstu fjárlög verði hallalaus.

Vinnumarkaðurinn er veikur hlekkur

Hagstjórnarkeðjan verður aldrei sterkari en hennar veikasti hlekkur. Árangursrík hagstjórn má sín lítils ef vinnumarkaðurinn styður ekki við hana. Í gegnum tíðina hafa umsamdar launahækkanir á Íslandi verið undantekningalítið umfram sem nemur samtölu framleiðnivaxtar og verðbólgumarkmiðs. Það hefur stuðlað að hærri verðbólgu og vöxtum en heppilegt er.

Árið 1988 færðu hagfræðingarnir Calmfors og Driffel rök fyrir því að farsælast væri að semja um laun á vinnumarkaði með annað hvort mjög mikilli miðstýringu eða mjög lítilli. Millivegurinn, með mörgum stéttarfélögum og þar með miðlungsmikilli miðstýringu, sé óheppilegri.

Miðlungsmikil miðstýring er staðan hér á Íslandi. Umsvif stéttarfélaga eru mikil og samningsréttur er í höndum margra einstakra verkalýðsfélaga, en ekki heildarsamtaka. Á móti launþegasamtökunum fara Samtök atvinnulífsins með samningsrétt fyrir stóran hlut almenna vinnumarkaðsins. Eftir stendur opinberi vinnumarkaðurinn, sem stígur ekki alltaf í takt við hinn almenna. Þessi uppbygging ýtir undir nafnlaunahækkanir sem ekki samrýmast verðstöðugleika.

Skref í rétta átt

Síðustu langtímasamningar á almennum vinnumarkaði, svokallaðir stöðugleikasamningar, voru skref í átt að sjálfbærari þróun en oft áður. Samningarnir voru engu að síður dýrir, en framför miðað við fyrri ár gaf tilefni til hóflegrar bjartsýni. Útlit er fyrir að bandalög launþega á opinberum vinnumarkaði vilji nú víkja frá þeirri launastefnu sem mörkuð var með stöðugleikasa­mningunum. Þessu til viðbótar njóta opinberir starfsmenn ýmissa sérréttinda sem ekki bjóðast starfsfólki einkageirans, svo sem aukinn veikindaréttur, styttri vinnutími og lengra orlof. Þetta ósamræmi milli þessara aðila á vinnumarkaði grefur bæði undan stöðugleika og samfélagssátt.

Hagstjórn í landinu er á ábyrgð kjörinna fulltrúa. Vinnumarkaðurinn er þar ekki undanskilinn og þar er tímabært að grípa inn í. Það má í fyrsta lagi gera með því að jafna réttindi opinberra starfsmanna við réttindi í einkageiranum. Í öðru lagi þurfa nafnlaunahækkanir að samræmast framleiðnivexti útflutningsgreina, líkt og tíðkast á öðrum Norðurlöndum. Loks þarf að styrkja heimildir ríkissáttasemjara til að skera á hnúta í kjarasamningagerð. Þar til stjórnvöld ráðast í þessar aðgerðir mun vítahringur íslenska vinnumarkaðarins halda áfram.

Framboðshliðin má ekki gleymast

Við erum ekki komin fyrir vind þegar kemur að stöðugleika þrátt fyrir að verðbólga hafi hjaðnað. Til að skilja betur verðbólguna og tryggja viðeigandi hagstjórnarviðbrögð er gagnlegt að greina hana eftir eðli og uppruna.

Í verðhækkunum eru fólgin skilaboð um að jafnvægið á milli framboðs og eftirspurnar hafi breyst. Verðbólga er drifin áfram af aukinni eftirspurn sem má slá á með hækkun stýrivaxta eða aðhaldsömum ríkisfjármálum. Hins vegar kalla verðhækkanir vegna samdráttar í framboði á annars konar viðbrögð. Í því tilfelli verða aðgerðir stjórnvalda að styðja við framboðshliðina, t.d. með aðgerðum sem stuðla að bættri nýtingu auðlinda, aukinni framleiðni og tækniframförum.

Hér má t.d. nefna orkumálin. Lengi vel stærðum við okkur af lágu orkuverði en athafnaleysið hefur reynst okkur dýrkeypt. Raforkuverð hefur hækkað um 13% á ársgrundvelli og eru dæmi um tugprósenta hækkanir til fyrirtækja. Regluverkið í kringum aukna orkuöflun er of þunglamalegt og flókið. Fleiri hindranir má þó finna í stjórnsýslunni en í nýrri skýrslu um rammaáætlun segir að „[þ]ær tafir sem orðið hafa á afgreiðslu tillagna verkefnisstjórnar virðast að mestu liggja hjá þeim stjórnsýsluaðilum sem síðar koma í ferlinu, ráðherra, Alþingi og mögulega sveitarstjórnum“.

Stjórnvöld verða að draga úr óhóflegri reglustýringu, bæta skilvirkni stjórnsýslunnar og auka fyrirsjáanleika í ákvarðanatöku. Með því að greiða fyrir aukinni orkuöflun má styðja við framboðshlið hagkerfisins sem eykur verðstöðugleika.

Allt helst í hendur

Í ábyrgri hagstjórn felst efnahagslegur stöðugleiki með aðhaldi í ríkisfjármálum, skilvirk umgjörð vinnumarkaðarins og aðgerðir sem styðja við framboðshlið hagkerfisins. Stjórnvöld verða að axla ábyrgð og grípa til raunhæfra aðgerða sem stuðla að sjálfbærum vexti og stöðugleika. Að öðrum kosti er hætta á að óstöðugleiki og sveiflur ráði för, sem myndi grafa undan samkeppnishæfni og lífskjörum til framtíðar.

Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs.

Greinin birtist í sérblaðinu Viðskiptaþing 2025.