Samstöðin heldur úti nokkuð kröftugum veffréttamiðli þar sem fjallað er um fréttir og dægurmál frá sjónarhorninu yst á vinstri kantinum.

Í síðustu viku birtist kyndug umfjöllun þar sem að blaðamaðurinn Jón Ferdínand Estherarson gagnrýnir fréttaflutning starfsbræðra sinna á Vísi um afkomu bankanna á fyrri helmingi ársins harðlega.

Jón Ferdínand segir þá Vísismenn reyna að villa um fyrir lesendum sínum og telja þeim trú um að hagnaður Arion banka á fyrri helming ársins hafi minnkað milli ára. Hagnaður Arion var 9,9 milljarðar króna fyrstu sex mánuði ársins en var 13,4 milljarðar á sama tíma í fyrra. Jón Ferdínand skrifar:

„Hagnaðartölur Arion banka eru þó rammaðar inn sem einhvers konar samdráttur í fréttaflutningi Vísis, sem ber fyrirsögnina: „Hagnaður Arion banka dregst saman milli ára“. Tæknilega séð er það auðvitað rétt, hagnaður fyrstu sex mánuði ársins í fyrra var 13,4 milljarðar til samanburðar við 9,9 milljarða í ár. Mismunurinn er þó vegna 585 milljóna króna sektar sem bankinn greiddi ríkissjóði vegna máls höfðað af Seðlabankanum, en Arion banki gerðist brotlegur við fjöldamörg lög sem meðal annars vörðuðu peningaþvott og fjármögnun hryðjuverka vegna bágs öryggis og áhættumats bankans.

Ef ekki hefði verið fyrir það hefði Arion banki því skilað hærri hagnaði en í fyrra. Af þeim sökum er framsetning Vísis fremur skrítin.”

Nú ættu flestir að geta verið sammála um að mismunurinn á milli 13,4 milljarða og 9,9 milljarða er ekki 585 milljónir króna hvað svo sem Jón Ferdínand kann að segja við því. Furðulegt er að fréttin standi enn óhögguð á vef Samstöðvarinnar.

***

Vakin var athygli á því í Staksteinum Morgunblaðsins á mánudag að hugtakið „öfgavinstrimenn“ hafi heyrst í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag. Þeir voru sagðir bera ábyrgð á skemmdarverkum á lestarkerfinu í Frakklandi og tilraunum til þess að skapa glundroða á Ólympíuleikunum sem nú standa yfir í París.

Það sem vakti athygli Staksteinahöfundar er að fáheyrt er að öfgar séu spyrtar saman við vinstrimenn í fréttaflutningi ríkismiðilsins. Í raun fann Staksteinahöfundar aðeins eitt dæmi um slíkt og það er frá árinu 2013.

Aftur á móti koma öfgamenn á hægri vængnum við sögu í fréttum Ríkisútvarpsins á nánast hverjum degi. Í Staksteinum segir:

„Fréttastofa RÚV sér hins vegar hægriöfgamenn í hverju horni, hægriöfgaflokka og harðlínuhægriflokka, svo ekki fari fram hjá neinum hvar er mest úrval af slíkum föntum. Jafnvel þótt þeir séu sumir til vinstri!“

Það er óneitanlega sérstakt að ríkismiðillinn skuli nota svo gildishlaðin hugtök eingöngu um ákveðin stjórnmálaöfl og það leiðir hugann að því hversu miklu orðalag getur skipt í fréttaflutningi. Fram hefur komið að Ríkisútvarpið hefur mótað sér þá stefnu að nota kynhlutlaust tungutak þar sem því verður komið við. Spyrja má hvort að sambærileg stefnumótun liggi að baki hvernig öfgamenn eru dregnir í dilka af fréttamönnum Ríkisútvarpsins.

***

Fjölmiðlar fjölluðu um í síðustu viku að tilkynningum til barnaverndaryfirvalda fjölgaði verulega fyrstu mánuði þessa árs. Samantekt frá Barna- og fjölskyldustofu er vissulega nöturleg. Þannig segir í umfjöllun Vísis að af þeim tilkynningum sem bárust á tímabilinu janúar til mars á þessu ári voru flestar vegna vanrækslu eða ríflega 40 prósent tilkynninga. Næst flestar voru tilkynningar vegna áhættuhegðunar barns eða um 34 prósent og þá tilkynningar vegna ofbeldis rúmlega 23 prósent.

Þeir sem starfa að velferð barna og fleiri sérfræðingar voru spurðir hverju þetta sætti í fjölmiðlum. Morgunblaðið ræddi við Margréti Valdimarsdóttur, dósent í félags- og afbrotafræði við Háskóla Íslands, sem sagði einangrun á tímum samkomutakmarkana stjórnvalda meðan heimsfaraldurinn gæti verið skýring á aukinni tíðni áhættuhegðunar barna og vísaði til erlendra rannsókna í þeim efnum.

Margrét sló þó þann varnagla að engar slíkar rannsóknir hafi enn sem komið er verið gerðar á landinu. Tótla Sæmundsdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla sló enga slíka varnagla þegar Elín Margrét Böðvarsdóttir fréttamaður Vísis ræddi við hana um málið.

Tótla segir skýr merki um afleiðingar kórónuveirufaraldursins á aukningu á áhættuhegðun barna. Vísir hefur eftir Tótlu:

„Þegar börn lokast inn á heimilum þar sem er vanræksla og fíknihegðun og annað slíkt að þá kemur okkur ekki á óvart að þegar þau eru ekki í skóla eða skipulögðu íþróttastarfi eða annars staðar þar sem er yfirleitt verið að grípa þennan hóp. Þannig ég held að við séum bara rétt að byrja að sjá afleiðingar þess sem gerðist þarna.“

***

Þarna virðast hvorki Tótla né fréttamaður Vísis gera sér grein fyrir að ólíkt því sem átti sér stað í öðrum vestrænum ríkjum þá lokuðu íslenskir grunnskólar aldrei á tímum heimsfaraldursins. Í gögnum Hagstofunnar kemur þannig fram að ríflega þriðjungur grunnskólanema misstu ekki út einn einasta kennsludag vegna faraldursins skólaárið 2019-2020 og um helmingur grunnskólanema missti einungis út einn eða tvo daga vegna faraldursins.

Í stórum dráttum var það sama uppi á teningnum önnur kennsluár meðan að heimsfaraldurinn stóð yfir. Stóra málið í þessu samhengi er að grunnskólastarf raskaðist ekki hér á landi með sambærilegum hætti og í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Væntanlega hefur skólastarf hér á landi raskast meira gegnum tíðina vegna kennaraverkfalla en heimsfaraldursins og þar af leiðandi gætu þeir sem sjá tengsl þarna á milli alveg eins haft áhyggjur af áhrifum sumar-, jóla- og páskafrís á áhættuhegðun og fíkniefnaneyslu ungmenna.

***

Vikan fyrir verslunarmannahelgina er flestum þeim sem fylgjast með fjölmiðlum erfið. Það er eins og æði renni á þá sem starfa á ljósvakamiðlum. Fjölmiðlafólk verður heltekið af því hvert fólk sé að fara um helgina og rætt er við fólk víðs vegar um landið frá morgni til kvölds og inn á milli talað við lögreglu og fulltrúa Samgöngustofu um að fólk eigi „að flýta sér hægt“ og „halda góðu bili á milli bíla á þjóðveginum“.

Vonum að fjölmiðlamenn komist loks upp úr þeim hjólförum sem þeir hafa verið fastir síðustu áratugi þegar kemur að umfjöllun „um þessa mestu ferðahelgi ársins“ og finna einhverja ferska fleti á umfjöllun um landinn gerir sér til dægrastyttingar um helgina.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 31. júlí 2024.