Óðinn fjallaði á fimmtudaginn í Viðskiptablaðinu um Lindarhvolsmálið. Hér á eftir fer stutt brot úr pistilnum sem snýr að ríkisendurskoðanda, sérfræðingi í fjármálaráðuneytinu og nývöknuðu Ríkisútvarpinu í málinu. Áskrifendur geta lesið pistilinn í heild hér.

Enn vitlausari rök stjórnmálafræðingsins

Núverandi ríkisendurskoðandi, sem er ekki endurskoðandi heldur stjórnmálafræðingur, hefur ítrekað sagt að skýrsla Sigurðar Þórðarson sé vinnugagn og embættinu sé ekki skylt að afhenda slík gögn. Óðinn ætlar ekki að skera úr um það hvort um skýrslu er að ræða eða vinnugagn. Það liggja ekki fyrir eitt lögfræðiálit, heldur tvö, um að þetta sé skýrsla sem þingmenn eigi rétt á að skoða.

En þetta skiptir engu máli. Það sem máli skiptir er að nú er rökstuddur grunur uppi um að sala og fullnusta eigna Lindarhvols hafi ekki verið með eðlilegum hætti. Rök núverandi renda, sem er ekki endurskoðandi, eru þau að birting „vinnugagnanna“ geti verið slæmt fordæmi.

Lögin banna Ríkisendurskoðun ekki að birta gögnin. Vill Ríkisendurskoðun ekki geta átt þann kost í framtíðinni að birta vinnugögn til að varpa ljósi á mál þegar vantraust ríkir í þjóðfélaginu - til þess að slá á það vantraust? Í hverri einustu skýrslu sem unnin er koma upp vafaatriði hversu langt á að ganga í birtum upplýsingum.

Vandi núverandi ríkisendurskoðanda, sem er ekki endurskoðandi, er að það tekur ekki nokkur lifandi maður mark á skýrslunni sem embættis skilaði af sér fyrr en þau atriði sem nefnd hafa verið að ofan verða skýrð.

Esther Finnbogadóttir sérfræðingur í Fjármálaráðuneytinu og stjórnarmaður í Lindarhvoli.

Skyndilegt minnisleysi

Esther Finnbogadóttur sérfræðingur í Fjármálaráðuneytinu kom fyrir dóm sem vitni á dögunum. Einn bjóðenda í Klakka hefur stefnt Lindarhvoli vegna sölunnar.

Það var merkilegt að stjórnarmaðurinn hafði misst minnið. Hún mundi ekki meiriháttar ákvarðanir sem snertu söluna á Klakka. Minnisleysið var þrátt fyrir að sérfræðingurinn í fjármálaráðuneytinu og fyrrum stjórn Lindarhvols funduðu með Steinari Þór Guðgeirssyni, þeim sem sá um sölu eignanna og lögmanni félagsins í málinu, í Seðlabankanum til að rifja upp málið.

Allt er ótrúlegt og óskiljanlegt og minnir minnisleysið helst á Joe okkar Biden.

***

Ríkisútvarpið vaknar

Ríkisútvarpið er byrjað að flytja fréttir af málinu. Það er auðvitað vegna þess að samflokksmenn fréttamannanna í Samfylkingunni eru búnir að átta sig á því að málið er óþægilegt pólitískt, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það finnst Óðni miður. En það mætti stundum halda að forysta Sjálfstæðisflokksins væri fædd í gær. Hvernig dettur því ágæta fólki í hug að svona mál hverfi?

Pistill Óðins birtist Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 16. mars 2022. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.