Kröfur Kennarasambandsins í yfirstandandi kjaradeilu snúast fyrst og fremst um samkomulag frá árinu 2016 um jöfnun launa á milli opinbera vinnumarkaðarins og þess almenna. Sambandið krefst þess að „staðið verði við“ samkomulagið og gera kröfu um sambærileg laun og háskólamenntaðir sérfræðingar á almennum vinnumarkaði. Illa hefur þó gengið að fá svör um hvað umrædd krafa felur í sér mikla hækkun launa.

***

Óháð óskýrum kröfum sambandsins veltir Týr fyrir sér hversu sanngjarnt það er að jafna laun á milli opinbera vinnumarkaðarins og þess almenna í ljósi þeirra sérréttinda sem opinberir njóta umfram það sem þekkist í einkageiranum.

Í greiningu sem Viðskiptaráð birti undir lok síðasta árs kemur fram að samanlagt jafngildi sérréttindi opinberra starfsmanna 19% kauphækkun miðað við einkageirann. Styttri vinnuvika, ríkari veikindaréttur, aukið starfsöryggi og lengra orlof eru meðal þeirra sérréttinda sem opinberir starfsmenn njóta umfram  einkageirans.

***

Þessu til viðbótar hafa laun opinberra starfsmanna hækkað umfram laun á almennum vinnumarkaði á undanförnum árum. Enda hafa atvinnurekendur í einkageiranum margir kvartað yfir því að eiga í vök að verjast við að halda starfsfólki hjá sér þegar hlýr faðmur hins opinbera kallar. Hið opinbera getur í ýmsum tilfellum boðið fólki hærri laun og mun betri réttindi. Það blasir við hve hættuleg og óheppileg slík staða er fyrir íslenskt hagkerfi og samfélagið í heild sinni.

Það eru óyggjandi sannindi að verðmætasköpun samfélagsins fer fyrst og fremst fram í einkageiranum, sem svo fjármagnar opinbera kerfið með greiðslu skatta og annarra gjalda. Af hverju ætti fólk að nenna að hafa fyrir því að auka verðmætasköpun með því að stofna fyrirtæki eða nýta krafta sína til starfa í einkageiranum þegar það getur gengið til starfa hjá hinu opinbera og fengið sambærilegt eða betri laun, auk fyrrgreindra sérréttinda?

***

Samfélag með slíka innbyggða hvata er dæmt til hnignunar. Týr hvetur ráðamenn til að jafna réttindastöðu milli opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa í einkageiranum, sé það á annað borð markmiðið að laun milli markaða séu sambærileg. Ekki verður bæði sleppt og haldið.

Týr er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 19. febrúar sl.