Á Alþingi er verið að ræða frumvarp um „Vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga“.

Stjórnarfrumvarp forsætisráðherrans gerir ráð fyrir að nýr skattur verði lagður á alla húseigendur í landinu. Skattinum, sem kallaður er forvarnargjald svo hann líti svolítið betur úr, er ætlað að skila næstum einum milljarði króna í tekjur á næsta ári.

Á Alþingi er verið að ræða frumvarp um „Vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga“.

Stjórnarfrumvarp forsætisráðherrans gerir ráð fyrir að nýr skattur verði lagður á alla húseigendur í landinu. Skattinum, sem kallaður er forvarnargjald svo hann líti svolítið betur úr, er ætlað að skila næstum einum milljarði króna í tekjur á næsta ári.

Að undanförnu hefur verið umræða um hvaða mannvirki þurfi hugsanlega að vernda ef til goss kemur á Reykjanesi. Það mannvirki sem mest hefur verið rætt um er Svartsengi, orkuver HS Orku.

Í ársreikningi HS Orku fyrir árið 2022 segir að endurmat Svartsengis hafi verið jákvætt um 4 milljarða króna en öll orkuver félagsins eru metin á 54 milljarða.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að Svartsengi væri fært á 40 milljarða í bókum HS Orku en varnargarður vegna virkjunarinnar kosti 3 milljarða.

Starfsemi HS Orku er byggð á nýtingu háhitasvæðisins á Reykjanesi. Félaginu er auðvitað fullkunnugt um hættuna sem stafar af því að starfa á slíku hættusvæði.

Týr veltir fyrir sér hvers vegna í ósköpunum húseigendur á Íslandi eigi að greiða enn einn nýjan skatt til verja eigu félags sem sérhæfir sig í nýtingu jarðhita, með allri þeirri hagnaðarvon og tapsáhættu sem því fylgir.

Hvers vegna er ekki allt eins lagður nefskattur á þá sem eru með skegg, ganga um í skóstærð 42 eða hafa brimbretti að áhugamáli.

Helmingur HS Orku er í eigu Ancala Partners, vogunarsjóðs í Bretlandi. Mikið hljóta þeir þarna í London að hlægja sig máttlausa yfir heimsku okkur Íslendinga. Að ætla að minnka áhættu þeirra verulega með því að byggja varnargarð og láta einhvern annan borga fyrir hann.

Týr skilur ekki hvers vegna ríkisstjórnin leggur svona mál fram – það hlýtur að vera byggt á einhverjum misskilningi.

Þrátt fyrir að helsta skemmtun Vinstri-grænna sé að leggja skatta á aðra þá er það varla svo að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vilji virkilega að almenningur greiði reikninginn fyrir breskan vogunarsjóð. Eða hvað?

Týr er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins.