Það verður að teljast til marks um hugmyndaauðgi þess birtingarform verkalýðshreyfingarinnar sem kennir sig við Breiðfylkingu að láta sér detta í hug að fara fram á afnám sjálfstæðis Seðlabanka Íslands í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Þrátt fyrir að talsmenn Breiðfylkingarinnar hafi sagt við fjölmiðlum að þeir hefðu einungis viljað slá varnagla og að samningurinn innihéldi svokölluð rauð strik. Eitt þessara rauðu strika var að vextir þyrftu að lækka um 250 punkta fyrir vormánuði næsta árs.

Það blasir við öllum að slíkt samkomulag væri beinlínis aðför að sjálfstæði Seðlabankans og þeirri umgjörð sem hefur verið um framkvæmd peningamálastefnunnar frá aldamótum. Seðlabankinn rekur vaxtatefnu lögum samkvæmt sem tekur mið af verðbólgumarkmiðum. Verðbólguvæntingar hverju sinni skipta þar mestu um þegar kemur að vaxta-ákvörðunum bankans. Um þær væntingar verður ekki samið í Karphúsinu og beinlínis fráleitt að slíkt komi til tals.

Muni það raungerast að vextir Seðlabankans lækki um 250 punkta á næstu tólf mánuðum eða svo væri það til marks um mikla kólnun í hagkerfinu frá þeirri stöðu sem er nú uppi. Við slíkar aðstæður væri fráleitt að virkja uppsagnarákvæði í kjarasamningum milli Samtaka atvinnulífsins og Breiðfylkingarinnar.

Í þessu samhengi er jafnframt rétt að halda því til haga að í nýjustu peningamálum Seðlabankans, sem komu út í síðustu viku, má sjá skýrar vísbendingar um að aðstæður hafi versnað hratt í hagkerfinu. Óvissan vegna Reykjaneselda bætir ekki úr skák. Það er ekki útilokað að vextir Seðlabankans verði umtalsvert lægri eftir eitt ár. En það myndi ekki vera minnisvarði um samningssnilld Ragnars Þórs Ingólfssonar, Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Vilhjálms Birgissonar heldur áminning um erfiða stöðu í hagkerfinu.

Í sjálfu sér er ekkert athugavert að í kjarasamningum sé að finna ákvæði sem taka til þess ef aðstæður breytast með markverðum hætti. Kröfur um að vaxtastigið verði komið á einhvern ákveðinn stað á samningstímanum falla ekki undir slíkt og að ekki sé minnst á fráleitar kröfur um að skref verði stigin áfram í átt að verðtryggingu launa. Fyrirkomulag sem hefði gríðarlegan þjóðhagslegan kostnað í för með sér.

Sé það rétt að verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins hafi verið búin að koma sér saman um launaliðinn og þessar óraunhæfu kröfur Breiðfylkingarinnar um afnám sjálfstæðis Seðlabankans og verðtryggingu launa séu það eina sem standa út af borðinu þá hlýtur að vera stutt í að kjarasamningar verði undirritaðir.

En vafalaust eru deiluefnin stærri og veigameiri en lesa má úr þeim fréttum sem hafa verið fluttar af gangi mála. Forsvarsmenn SA hafa til að mynda lítið sagt um kröfu Breiðfylkingarinnar um að millifærslukerfinu í velferðarmálum verði breytt þannig að þau séu að skapi Stefáns Ólafssonar félagsfræðings og starfsmanns Eflingar. Þessar hugmyndir myndu auka útgjöld ríkisins um á bilinu 25-30 milljarða á ári sé miðað við útreikninga áðurnefnds Stefáns. Þannig er óhætt að gera ráð fyrir að þær verði mun dýrari.

Það blasir við að þessi kostnaður myndi leggjast á fyrirtæki þessa lands að stærstum hluta. Það er nánast óhugsandi að samningafólk SA hafi ekki gert sér grein fyrir þeim kostnaði og hvaða áhrif hann hefði á efnahagslífið.

Það er fagnaðarefni ef rétt reynist að samningsaðilar hafi komið sér saman um launaliðinn. Ekki skal fullyrða hér um hvort það sé trúverðugt. Ekki síst í ljósi þess að verkalýðshreyfingin er að gera kröfur um að afnema sjálfstæði Seðlabankans og stokka upp millifærslukerfum ríkisins við samningaborðið í stað þess að vinna að þeim hugmyndum á réttum vettvangi sem er hinn pólitíski vettvangur.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 14. febrúar 2024.