Síðustu dagar hafa verið erfiðir fyrir sjókvíaeldið á Vestfjörðum. Ekki bara fyrir þá sem eiga og reka fyrirtækin heldur líka fyrir alla þá sem láta sér annt um dýr. Það sem við höfum séð þar er varla hægt að kalla annað en stórslys við framleiðslu matvæla.

Það efast vonandi enginn um vilja fyrirtækjanna til úrbóta. Það er þeirra hagur að framleiða dýrmæta og góða vöru. Tapið sem fylgir ástandi eins og við höfum séð síðustu vikur er ekki bara fjárhagslegt heldur líka tilfinningalegt og hefur áhrif á alla sem koma að þessari grein. Ljóst er að kerfið hér á landi er þungt í vöfum og of lengi að bregðast við. Það stendur vonandi til bóta.

En það er óneitanlega erfitt að sitja undir gagnrýni um dýraníð frá fólki sem stundar það að koma öngli í lax, þreyta hann, meiða og veiða. Eingöngu til að sleppa honum aftur.

Sjókvíaeldi er barátta við náttúruna og ógnir hennar.

Tilgangurinn með laxeldi er þó í það minnsta að búa til matvæli sem heimurinn þarf á að halda. Á heimsvísu hafa fiskveiðar úr sjó staðið í stað í hátt í þrjátíu ár, á sama tíma og mannfjöldi í heiminum hefur tæplega tvöfaldast. Staðan er nú sú að fleiri fiskar eru ræktaðir en veiddir og engin merki um að það eigi eftir að breytast.

Sjókvíaeldi er barátta við náttúruna og ógnir hennar. En rétt eins og bóndi sem þarf að fella fé vegna riðu er fáránleg krafa að hann þurfi að bregða búi. Við þurfum hins vegar að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Það er sameiginlegt verkefni fiskeldisfyrirtækjanna og stjórnvalda.