Hrafnarnir hafa gaman af því hvernig sumir stuðningsmenn frambjóðanda í forsetakosningunum sjá ekki sólina fyrir mannkostum þeirra og yfirburðum.

Hrafnarnir hafa gaman af því hvernig sumir stuðningsmenn frambjóðanda í forsetakosningunum sjá ekki sólina fyrir mannkostum þeirra og yfirburðum.

Sara Oskarsson varaþingmaður Pírata styður Höllu Hrund Logadóttur í forsetakosningunum. Í grein sem hún birti á Vísi telur hún Höllu Hrund fyrst og fremst til tekna að sem orkumálastjóri hafi „hún bent á að nýlegar jarðhræringarnar sýni mikilvægi orkuinnviða landsins og verðmæti jarðhitans fyrir allt samfélagið“. Væntanlega telur Sara að landsmenn hafi staðið áfram í myrkrinu varðandi þetta hefði Halla ekki skýrt þessi óvæntu orsakatengsl og gerst boðberi almæltra tíðinda.

Hrafnarnir tóku reyndar eftir því að Halla sagði eitthvað á þá leið að til stæði að einkavæða Landsvirkjun og hún myndi reyna koma í veg fyrir það. Þessi ummæli hafa greinilega skolast til í umræðunni. Hrafnarnir heyrðu á dögunum að Halla Hrund væri eini frambjóðandinn sem myndi koma í veg fyrir einkavæðingu Ljósleiðarans – en það er önnur saga. Hverju sem því líður velta hrafnarnir því fyrir sér hvort yfirlýsingar Höllu í kosningabaráttunni dæma hana ekki vanhæfa til að snúa aftur í embætti orkumálastjóra ef Bessastaðadraumur hennar rætist ekki en hún er nú í leyfi frá störfum.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 29. maí.