„Framtíðin er óviss og endalokin aldrei langt undan,“ söng Jim Morrisson hérna um árið.

Hröfnunum varð hugsað til þessa þegar þeir skoðuðu fundargerðir framtíðarnefndar Alþingis á dögunum. Hrafnarnir hafa áður fjallað um störf nefndarinnar en þau virðast fyrst og fremst snúa að skipulagningu ferðalaga nefndarmanna erlendis á framtíðarráðstefnur. Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, er nú formaður nefndarinnar og hefur hún fundað einu sinni á þessu þingi. Á þeim fundi var rætt um framtíð framtíðarnefndarinnar en fram kemur í fundargerð að fyrri nefnd hafi ekki náð að fjalla um framtíð nefndarinnar.

Samkvæmt formanni nefndarinnar er meginhlutverk nefndarmanna að ákvarða framtíð framtíðarnefndar. Þá var ákveðið á fundi framtíðarnefndar að hún myndi fá yfirlit yfir allar framtíðarnefndir sem eru starfandi í landinu. Þó svo að framtíð framtíðarnefndar sé óráðin leggja hrafnarnir til að framtíðarnefnd verði lögð niður svo að nefndarmenn geti einbeitt sér að þarfari verkum.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 16. apríl 2025.