Fréttablaðið hefur tilkynnt að blaðið verði ekki lengur borið í hús. Þess í stað geta áhugasamir sótt sér eintak á útgáfudögum í blaðakössum sem verða á 120 stöðum víðsvegar um land. Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri skrifar um þessar breytingar í leiðara blaðsins á þriðjudag. Hann segir:

Eftir­leiðis ratar hvert prentað ein­tak blaðsins sannar­lega í hendur þeirra sem ætla sér að lesa það. Og þar er lykil­breytingin komin, en raun­veru­leg nýting á hverju ein­taki þess verður meiri en nokkru sinni. Ætla má að lestur blaðsins verði á­fram mikill, ef ekki meiri en hann hefur verið á síðustu misserum, en sam­kvæmt viður­kenndum könnunum er lestur Frétta­blaðsins nú yfir 28 prósent meðal lands­manna en mælist 35 prósent á höfuð­borgar­svæðinu.

Með öðrum orðum þá býst ritstjórinn að lestur blaðsins verði meiri en nokkru sinni með þessum breytingum. Óskhyggja virðist stýra þeirri trú ritstjórans enda er erfitt að sjá að breytingarnar muni ekki leiða til mikils samdráttar á upplagi Fréttablaðsins. Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, fjallaði um málið á miðopnu á þriðjudag. Hann bendir á eftirfarandi:

Talið er að Frétta­blaðið hafi verið prentað í allt að 75 þúsund ein­tök­um til þessa. Sé miðað við að blaðinu verði dreift á 120 stöðum og 50 ein­tök að jafnaði til reiðu á hverj­um stað, ræðir þar aðeins um 6 þúsund ein­tök, svo við það gæti mögu­leg­um les­end­um fækkað gríðarlega.“

Þrátt fyrir að umhverfissjónarmið hafi verið dregin fram þegar kom að því að réttlæta breytingu á dreifingu blaðsins dylst engum að ástæðan er erfiður rekstur. Rétt eins og hjá öllum öðrum fjölmiðlum en ríkisapparatinu í Efstaleiti. Vonandi styrkir sá sparnaður sem hlýst við að hætta dreifingu blaðsins til heimila rekstrargrundvöllinn. Að því sögðu má furða sig á því að stjórnendur blaðsins hafi ekki stigið skrefið til fulls og breytt blaðinu í síðdegisútgáfu. Það er einmitt þá sem flestir eru á ferli í námunda við blaðakassa Fréttablaðsins. Fréttirnar væru þá sæmilega nýjar og varan til þess fallin að fólk vilji taka hana með sér úr búðinni. Útgáfa sem væri stödd einhvers staðar á milli DV og Evening Standard.

***

Leiðtogar stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi voru til útvarps á Rás 2 að morgni gamlársdags. Ingvar Þór Björnsson og Snærós Sindradóttir, sem alla jafna stjórna morgunútvarpi Rásar 2, gerðu upp árið með formönnunum og fór yfir það helsta sem setti mark sitt á árið.

Það sem vakti athygli fjölmiðlarýnis voru ekki sjálf viðtölin við formennina heldur kynning þeirra Ingvars og Snærósar við upphaf þáttarins. Þar tóku þau skýrt fram að ekki væri hægt að eyða öllum þættinum í að ræða söluna á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka fyrr á árinu. En bættu því við að þetta væri langstærsta fréttamál ársins og ýjuðu að því að full ástæða væri til þess að ræða það eingöngu. Þátturinn stóð yfir í 200 mínútur.

Fæstir taka undir þá skoðun að raun og veru ætti ekki að ræða neitt annað en söluna á Íslandsbanka þegar kemur að því að fara yfir atburði liðins árs. Þegar fjölmiðlafólk lætur svona út sér afhjúpar það ákveðna sýn sem á í flestum tilfellum lítið skylt með því hvernig almenningur upplifir hlutina.

Ágætt dæmi um þetta mátti sjá í fréttatíma Stöðvar 2 á nýárskvöld. Í honum gerði Snorri Másson fréttamaður Kryddsíldinni skil en hann var meðal stjórnenda þáttarins sem fluttur var á gamlársdag venju samkvæmt. Snorri taldi það fréttnæmast við umræður stjórnmálaleiðtoganna sem stóðu yfir í tvær klukkustundir að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefði sagt efnislega að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, væri ágæt og enn fremur að hann hefði hrósað henni í hástert. Það hrós kom til þegar þáttastjórnendur báðu stjórnmálaleiðtogana að fara svokallaðan hróshring og segja eitthvað jákvætt um sessunaut sinn á hægri hönd.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 5. janúar 2023.