Þórður Snær Júlíusson er hvergi af baki dottinn þó svo að hann hafi verið neyddur til þess að taka ekki sæti á þingi sökum skrifa sinna undir dulnefninu Þýska stálið fyrir nokkrum árum.
Hann sendir fylgjendum sínum reglulega fréttabréf og þar er hann svo vígreifur að dulnefnið Rauði öreiginn á betur við en vísun í þýska iðnaðarframleiðslu. Í fréttabréfi vikunnar dustar hann rykið af átakakenningum sósíalismans og lýsir hvernig Samfylkingin ætli að leiða ríkisstjórn sem ætlar að sigra millistéttina og þann litla hluta sem raðar sér yfir ofan.
Í fréttabréfinu talar Þórður um ríkasta prósentið sem „tók til sín“ stóran hluta af þeim auð sem hefur myndast í hagkerfinu á undanförnum árum. Þórður boðar að Samfylkingin ætli að ná þessum auð til baka en svarar ekki af hverjum hann var tekinn. Frá hverjum tóku þeir sem byggðu upp Kerecis þann auð sem myndaðist við sölu fyrirtækisins? Hröfnunum sýnist einsýnt að kjósendur Vinstri grænna og Sósíalista þurfi litlu að kvíða þó svo að flokkar þeirra séu ekki á þingi enda er erfitt að líta á Samfylkinguna sem annað en harðkjarna vinstriflokk í ljósi áherslna Þórðar. Hann endar pistil sinn á orðunum: „Það þarf að breyta Íslandi. Það þarf að gerast núna.“ Þessi orðræða minnir hrafnana á Þór Saari þegar hann var sem sprækastur á árunum 2009-2010.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. desember 2024.