Á þessum vettvangi í júlí var fjallað um forsíðufrétt Fréttablaðsins um að Atlantshafsbandalagið hefði óskað eftir heimild til þess að fara í mikla uppbyggingu á Langanesi. Fréttin var rituð af Birni Þorlákssyni blaðamanni og er þar fullyrt að utanríkisráðuneytið hafi farið fram á að NATO fengi að reisa mikinn viðlegukant og hafnarmannvirki á Langanesi til að þjónusta skip á vegum bandalagsins í norðurhöfum.

Fram kom í fréttinni að blaðamaður hefði reynt að fá staðfestingu á þessu í utanríkisráðuneytinu en engin svör borist. Það sem reyndist svo áhugavert við þessa „frétt“ er að ekkert reyndist hæft í henni.

Utanríkisráðuneytið fann sig knúið til þess að senda frá sér yfirlýsingu síðar um daginn þar sem fullyrðingum blaðsins var alfarið hafnað.

Björn blaðamaður var aftur á ferðinni á forsíðu blaðsins á þriðjudag.

Fyrirsögn fréttarinnar var: Lilja harmar skipan þjóðminjavarðar.

Fréttin hefst svo með þessum hætti:

Safnaþingsgesti fyrir austan setti hljóða þegar menningar-málaráðherra tók u-beygju og sagðist harma eigin skipan í stöðu þjóðminjavarðar.“ Og svo er haldið áfram:

Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra sagði á Safnaþingi á Austurfjöðrum í síðustu viku að hún harmaði að hafa skipað Hörpu Þórsdóttur sem þjóðminjavörð án auglýsingar. Lilja vísaði í skipan sinni til undanþáguákvæðis í starfsmannalögum sem heimilar tilfærslu embættismanna. Ráðherra sagði á Safnaþinginu eftir að gagnrýni kom fram á störf hennar að hún hefði ekki staðið að skipaninni ef hún hefði vitað hvaða viðbrögð yrðu í samfélaginu. Um hundrað manns urðu vitni að yfirlýsingunni og setti marga hljóða að sögn viðstaddra.

„Lilju var mikið niðri fyrir. Hún harmaði að hafa fært til embættismann í starfi með þessum hætti,“ segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður Íslandsdeildar ICOM, alþjóðaráðs safna.

„Við upplifðum að hún sæi sannarlega eftir þessu,“ bætir Ólöf Gerður við. Fyrir þingið hafði Lilja varið skipan sína með því að Harpa hefði verið yfirburðahæf til að gegna stöðunni. Þá hafði safnafólk notað orðið hneyksli um skipanina.“

Þetta hefði vissulega verið fréttnæmt ef rétt væri. Blaðamaður, sem augljóslega var ekki staddur á Safnaþingi á Austfjörðum í síðustu viku, virðist eingöngu styðjast við fullyrðingar eins fundarmanna um hvað ráðherra sagði á fundinum og ekki hefur hvarflað að honum að sannreyna þá frásögn með því að leita eftir viðbrögðum frá ráðherra eða aðstoðarmönnum hennar.

Það gerðu blaðamenn Vísis hins vegar sem náðu tali við Lilju eftir ríkisstjórnarfund í gær. Þar þvertók hún fyrir að harma skipunina og segist ekki hafa sagt neitt á þann veg á Safnaþinginu. Þó svo að Írar kunni að hafa eitthvað til síns máls þegar þeir segja að sannleikurinn megi ekki eyðileggja góða sögu þá er töluverður munur á fréttamennsku og slíkum sagnaskap. Ljóst má vera að blaðamenn og yfirstjórnendur Fréttablaðsins þurfa að velta fyrir sér heimildarmönnum sínum betur og skoða hvaða kröfur fréttir þurfa að uppfylla áður en þær rata á síður blaðsins.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 22. september 2022.