Óðinn fjallaði í þar síðustu viku um fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur um fyrirspurn til fjármálaráðherra um framlög íbúa á Íslandi til hins opinbera eftir uppruna.

Svar Sigurðar Inga eru mikil vonbrigði og sýna að hann skilur ekki mikilvægi málefnisins. Það gera hins vegar danskir stjórnmálamenn og gera danskar stofnanir ítarlegar skýrslur árlega um sama umfjöllunarefni, eins og Óðinn rakti í vor.

Hér á eftir fer pistill Óðins í fullri lengd.

Fyrirspurn Diljár Mistar og furðusvar Sigurðar Inga

Sigurður Ingi Jóhannsson svaraði á dögunum fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur um hreint framlag íbúa á Íslandi, bætur og annað slíkt þeirra sem búsettir eru á Íslandi, svipað og danska ríkið gerir.

Í svarinu var birt hreint framlag eftir þremur flokkum. Íslenskum ríkisborgurum, EES og EFTA löndum og öðru ríkisfangi.

Þessar tölur fjármálaráðherrann birti segja ákaflega litla sögu, aðra en það að Íslendingar eru með mun hærra hreint framlag en hinir hóparnir tveir, að meðaltali.

Sigurður Ingi, sem jafnframt er formaður afturhaldsflokksins Framsóknarflokks, var spurður um það í fyrirspurninni hvort ráðuneytið ætli að taka saman betri gögn en liggja fyrir.

„Ráðuneytið hefur ekki haft í hyggju að safna umfangsmeiri tölfræði á sínum vegum um stöðu hópa eftir þjóðerni heldur en nú þegar er gert.“

***

Ólíkt hafast menn að

Í Danmörku hefur danska fjármálaráðuneytið tekið saman upplýsandi skýrslur um framlög til hins opinbera og framlög hins opinbera til fjögurra hópa eftir uppruna. Að auki hefur danska hagstofan gert skýrslur um atvinnuleysi eftir sömu hópum, menntun, glæpatíðni og margt fleira. Óðinn fjallaði um innihald þessara skýrslna í vor í fjórum pistlum.

Í fyrstu skýrslu ráðuneytisins, vegna ársins 2014, sagði fjármálaráðherrann danski þetta um ástæður samantektarinnar.

Í mörg ár hefur verið gríðarleg umræðu í Danmörku um menningarlegar og efnahagslegar afleiðingar þess að hingað komi innflytjendur. Á málinu eru margar skoðanir og það verður að vera pláss fyrir þær.

En það er mikilvægt að umræðan fari fram á grundvelli staðreynda. Í þessari hagfræðilegu greiningu varpar fjármálaráðuneytið ljósi á hversu mikil áhrif sem innflytjendur og afkomendur þeirra hafa á opinber fjármál. Niðurstaða greiningarinnar er niðurdrepandi.

***

Svo komu sósíaldemókratarnir

Mattias Tesfaye innflytjendaráðherra Danmerkur á árunum 2019-2022, þingmaður danska sósíaldemókrataflokksins (systurflokks Samfylkingar) beitti sér fyrir því að í dönskum gögnum og skýrslum væri notast við fjóra hópa í landinu, Dani að uppruna og þrjá hópa innflytjenda, til að greina betur raunverulega stöðu hvers hóps. Faðir hans er hælisleitandi frá Eþíópíu en móðir hans er dönsk.

Meginbreytingin var MENAPT hópurinn sem þar sem innflytjendur eru upprunir frá þeim löndum sem meirihluti íbúa er múslimatrúar. Í stuttu máli upprunir í Mið-Austurlöndum, Norður Afríku, Pakistan og Tyrklandi.

Mattias rökstuddi MENAPT hópinn í viðtali við Berlinske þann 13. desember 2020:

Við þurfum réttar tölur og ég held að það muni gagnast og bæta umræðuna ef við opinberum þessar tölur, því í grundvallaratriðum sýna þær að við í Danmörku eigum í raun ekki í vandræðum með fólk frá Suður-Ameríku og Austurlöndum fjær. Við eigum í vandræðum með fólk frá Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

***

Gögn Sigurðar Inga gagnslaus

Þegar dönsku gögnin eru skoðuð þá sést að þriðji hópurinn hjá Sigurði Inga, önnur lönd, gefur engar upplýsingar sem máli skipta því hann er staðan er svo ólík milli upprunalanda.

Bretland er þar en samkvæmt dönsku gögnunum frá 2019, sem voru birt síðasta haust, eru Bretar með mesta meðalframlagið meðal allra innflytjenda. Bandaríkjamenn eru í þriðja sæti, Indverjar eru í fimmta sæti og Kínverjar í níunda sæti.

Innflytjendur frá nær öllum upprunalöndum í heiminum borga meira að meðaltali til hins opinbera í Danmörku en þeir fá. Nema múslimalöndin sem Danir kalla MENAPT löndin.

***

Hvers vegna ekki?

Óðinn skilur ekki afstöðu Sigurðar Inga Jóhannssonar. Hvers vegna í ósköpunum vill hann ekki taka saman tekjur, eða eftir atvikum kostnað, sem ríkissjóður og sveitarfélög hafa af einstaka hópum í samfélaginu?

Eins og danski fjármálaráðherrann benti á þá hefur fólk misjafnar skoðanir á innflytjendamálum. Er þá ekki betra að afstaðan byggist á staðreyndum en endalausum orðrómi á litla landinu Íslandi?

Eins væri auðvitað rétt að taka saman nákvæmari upplýsingar á borð við langtímaatvinnuleysi, bótagreiðslur sem standa yfir um langt skeið og þess háttar upplýsingar, ef gagn er af. Vitanlega eiga þessar upplýsingar ekki að vera persónugreinanlegar.

***

Ríkisstjórn sem ekkert getur

Nú hefur innflytjendum fjölgað mjög frá MENAPT löndunum á Íslandi og ríkissjóðurinn rekinn með miklum halla um langt skeið og verður það fram til 2029. Svar Sigurðar Inga við fyrirspurnin sýnir því mikið skeytingarleysi gagnvart skattgreiðendum.

Bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafa gegnt embætti fjármálaráðherra í þessari ríkisstjórn. Sjálfstæðismenn ætla að hittast á flokksráðsfundi um helgina. Væri ekki rétt að spyrja hina svokölluðu forystu hvers vegna sambærilegar skýrslur hafi ekki verið teknar saman hér líkt og í Danmörku?

Í eina tíð var það svo að sjálfstæðismenn fóru vel með almannafé, framsóknarmenn verr og vinstri menn verst.

Í vinstri stjórninni sem nú situr fara sjálfstæðismenn illa með almannafé, vinstri grænir fara verr með það en framsóknarmenn verst.

Óðinn veit ekki hvort það hafi komið nógu skýrt fram í pistlum Óðins undanfarin ár en þessi ríkisstjórn nú situr er ein sú versta frá því Hannes okkar Hafstein varð ráðherra Íslands árið 1904. Ef ekki sú versta.

Og hefur þá enginn gleymt Jóhönnustjórninni.

Óðinn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.