Það verður að teljast nokkuð afrek að takast að boða til mikils fundar um tilgreint málefni en forðast staðreyndir eins og heitan eldinn. ASÍ afrekaði þetta í síðustu viku þegar kom að auðlindagjaldtöku af fyrirtækjum í sjókvíaeldi.
Karen Ulltveit Moe, norskur hagfræðingur, sem hefur unnið að lagasetningu um skattlagningu fyrirtækja í greininni í Noregi, hélt þar áhugavert erindi. Í því kom fram að mikilvægt væri að skattleggja auðlindir á réttum tíma. Í tilfelli Noregs var það gert þegar fiskeldið hafði skilað miklum hagnaði í áraraðir. Hún sagði að gjaldtakan þyrfti að vera sanngjörn, stöðug og fyrirsjáanleg.
Þessir punktar virðist hafa farið framhjá ansi mörgum og umræðan náði svo einhvers konar hámarki í miðju pallborði, þegar fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur andvarpaði: Það er galið að það skuli ekki kosta neitt að ala fisk í sjókvíum!
Það þarf líklega að minna oftar á að fiskeldisfyrirtæki greiða bæði auðlindagjald og umhverfisgjald, ásamt hafnargjaldi, í upphæðum sem hvergi þekkjast. Þessar greiðslur voru 1,2 milljarðar í fyrra og verða sennilega vel yfir tveir milljarðar á þessu ári. Þá bætast við mörg hundruð milljónir sem skila sér í öðrum sköttum á borð við tekjuskatt fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra, auk tryggingagjalds og annarra launatengdra gjalda.
Það er líka staðreynd að ef auðlindagjaldtakan hér á landi væri sambærileg þeirri norsku, þá kæmu til muna minni tekjur til ríkisins en í núverandi gjaldafyrirkomulagi. Ef það var ætlunin með lúðrablæstri ASÍ og andvörpum þeirra sem þátt tóku í fundinum að koma því á framfæri, þá væri sjálfsagt auðsótt að sækja stuðning fiskeldisfyrirtækjanna fyrir þeirri nálgun. Það væri einmitt í anda sanngirni og stöðugleika sem Karen var umhugað um.
En refir ASÍ voru varla til þess skornir. Sambandið ætti því að líta sér nær þegar hugað er að því sem er galið í umræðu um auðlindagjaldtöku.