Jafnaðarmenn hafa lengi talað hátíðlega um réttlæti og jafnrétti, nú með enn einu slagorðinu: „nýtt upphaf“. Þessi söngur verður háværari í aðdraganda kosninga, þar sem lofað er stórhuga stjórnmálum, en þegar nánar er skoðað, felst lítið annað í þessu „nýja upphafi“ en gömul hugmyndafræði sem hefur ítrekað sýnt að bætir ekki lífskjör almennings, að minnsta kosti ekki til lengri tíma.

Stefna jafnaðarmanna hefur alla tíð gengið út á að leysa öll samfélagsvandamál með ríkisafskiptum. Hvert nýtt vandamál er afgreitt með auknum ríkisútgjöldum, hærri sköttum og þyngra regluverki. Hvort sem um er að ræða húsnæðismál, heilbrigðiskerfið eða menntamál, þá er svarið jafnan það sama: meira ríki og hærri ríkisútgjöld. Þetta er úrelt hugmyndafræði sem hefur í raun aldrei skilað lofuðum árangri.

Ríkisafskipti: Meiri sóun, minni árangur

Jafnaðarmennskan hægir á framþróun, dregur úr hvötum til nýsköpunar og eykur sóun. Þetta þekkjum við t.d. vel í heilbrigðiskerfinu þar sem biðlistar lengjast þrátt fyrir stóraukin fjárframlög. Einnig má nefna húsnæðismál og lóðaskort í boði Samfylkingarinnar sem hefur ekki verið til samtals um breytingar á vaxtamörkum höfuðborgarsvæðisins svo brjóta megi þar land undir byggð, því það er stjórnmálamönnum og embættismönnum borgarinnar ekki að skapi. Þetta hefur ekki aðeins valdið því að erfiðara er fyrir ungt fólk að koma inn á húsnæðismarkaðinn heldur leiðir þetta líka til hærri afborgana allra annarra af þeirra húsnæðislánum vegna verðbólgunnar.

Þrátt fyrir þetta virðast jafnaðarmenn staðfastir í þeirri trú að aðeins með stórum, ríkisreknum kerfum sé hægt að tryggja velferð almennings. Þessi hugmyndafræði gengur ekki upp. Raunveruleg framþróun kemur ekki frá miðstýrðum, ríkisreknum verkefnum, heldur frá einkaframtakinu og frelsinu sem því fylgir. Það er einkaframtakið sem drífur áfram nýsköpun, tryggir hagvöxt og skapar ný tækifæri fyrir venjulegt fólk.

Skattar eru ekki lausnin

Til þess að fjármagna stóraukin ríkisútgjöld Samfylkingarinnar hefur flokkurinn boðað skattahækkanir, og það í landi þar sem skattar eru mjög háir fyrir. Þetta felur meðal annars í sér hærri tekjuskatt, auðlegðarskatt og sértæka skatta á tilteknar atvinnugreinar. En hvað gerist þegar skattaumhverfið þrengist og fyrirtæki þurfa að greiða sífellt meira til ríkisins?

Auknar skattbyrðar hafa bein áhrif á fyrirtæki, sem þá geta síður fjárfest í nýsköpun, ráðið fólk til starfa eða aukið framleiðni sína. Það er því mótsögn að ætla sér að byggja upp heilbrigt atvinnulíf með því að þrengja að þeim sem skapa verðmætin. Jafnaðarmenn tala oft um nauðsyn þess að efla framleiðni, en með skattastefnu sinni draga þeir beinlínis úr möguleikum fyrirtækja til að vaxa og skapa verðmæti.

Það er staðreynd að of háir skattar draga úr fjárfestingu og atvinnusköpun. Það er ekki aðeins fyrirtækin sem líða fyrir þetta, heldur líka fólkið í landinu. Þegar fyrirtæki geta ekki vaxið eða ráðið til sín starfsfólk, minnka tækifærin fyrir venjulegt fólk til að fá vel launuð störf og bæta lífskjör sín. Með öðrum orðum; stefna jafnaðarmanna bitnar verst á því fólki sem þeir segjast ætla að vinna fyrir.

Sjálfstæðisflokkurinn boðar minni ríkisafskipti

Kosningarnar framundan bjóða upp á skýra valkosti. Annars vegar ríkisvæðingu með stórauknum útgjöldum og hærri sköttum og hins vegar Sjálfstæðisflokkinn sem boðar lausnir sem byggja á frelsi einstaklinga og ábyrgð atvinnulífsins. Það er nauðsynlegt að draga úr ríkisafskiptum, skapa hvata fyrir fyrirtæki til að fjárfesta og vaxa og minnka skattbyrðar á bæði einstaklinga og fyrirtæki.

Við þurfum ekki „nýtt upphaf“ með gamalkunnum endi. Það sem við þurfum er raunveruleg breyting, þar sem einstaklingar og fyrirtæki fá svigrúm til að vaxa og dafna án stöðugrar íhlutunar ríkisins. Aðeins þannig tryggjum við stöðugleika, sjálfbæran hagvöxt og betri lífsgæði fyrir alla landsmenn.

Þegar jafnaðarmenn tala um „nýtt upphaf“, þá bjóða þeir í rauninni ekki upp á neitt nýtt. Það sem þeir bjóða er gamla vínið í nýjum belgjum. Sömu úreltu hugmyndirnar sem hafa verið prófaðar aftur og aftur með litlum árangri.

Lausnin er einföld: Frjálst framtak og minni ríkisafskipti. Það er grunnurinn að betra samfélagi.

Höfundur er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.