Týr á erfitt með að skilja hvað hagsmunasamtök þeirra sem framleiða kvikmyndir og sjónvarpsefni eiga greiða leið í fjölmiðla.

* * *

Og alltaf er sama vitleysan endurtekin. Það á að borga sig margfalt fyrir skattgreiðendur að dæla styrkjum í kvikmyndagerð því annars verður ríkið af tekjum, fólk missir vinnu og þjóðarbúið verði af hálfum milljarði í erlendum gjaldeyri. Af hverju þá að biðja um milljarð í styrk? Af hverju ekki tvo, fjóra eða fjörutíu milljarða?

* * *

Það er eins og kvikmyndagerðarfólk haldi að ef það fær ekki peningana gufi þeir upp. En það er ekki svo. Ef Týr gefur sér að milljarðurinn sem var ætlaður kvikmyndagerðarfólki sitji eftir í vösum skattgreiðenda eru líkur á þeir verði ekki geymdir undir kodda. Þeim verður líklega eytt í neyslu eða fjárfestingu. Það skapar ríkinu tekjur og er líklega atvinnuskapandi.

* * *

Það er jafnvel hugsanlegt að þjóðarbúið græði meira þannig því líkur aukast á að peningunum sé varið í skynsöm verkefni ólíkt því sem gerist þegar opinberir sjóðir útdeila styrkjum til misnytsamlegra hluta.

Pistill Týs birtist í Viðskiptablaðinu 3. október 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .