Tímaritið Vísbending hefur komið út allar götur frá árinu 1983. Lengi vel var tímaritið einn helsti vettvangur skoðanaskipta fræðimanna um stjórnmál og hin döpru vísindi skortsins.

Þar tókust á kantmenn á hægri og vinstri væng stjórnmálamanna og einstaka fræðimaður batt miðjuna saman ásamt því að ógna í sífellu með hraða sínum og krafti eins og það var orðað.

Á síðustu árum hefur tímaritið orðið einsleitnara. Þar skrifa nánast eingöngu fræðimenn sem eiga flestir það sameiginlegt að vera helstu álitsgjafar um efnahagsmál í rabbþáttum Ríkisútvarpsins. Það skiptir svo sem litlu máli í hinu stóra samhengi en vitræn efnahagsumræða hefur fundið sér fjölmarga farvegi síðustu áratugi.

Nýlega tók Ásgeir Brynjar Torfason við ritstjórn blaðsins. Ekki er að sjá að mikilla breytinga sé að vænta með nýjum manni í brúnni.

Í nýjasta tölublaði Vísbendingar fjallar ritstjórinn um gróðaverðbólgu sem er hugtak sem hefur verið í tísku undanfarin ár. Eins og flestir vita er fátt jafn hallærislegt og tíska gærdagsins og það sama á við hugmyndina um að það sé græðgi fyrirtækjaeigenda sem skýrir fyrst og fremst þá miklu verðbólgu sem hefur verið á Vesturlöndum undanfarin ár. Hún hafi ekkert með peningaprentun og vaxtastig á tímum heimsfaraldursins að gera og enn síður með áhrif innrásar Rússa inn í Úkraínu á alþjóðaviðskipti.

***

Þessi skoðun hefur notið vinsælda á vinstri væng stjórnmálanna og hér á landi hefur henni verið mikið hampað af verkalýðsleiðtogum á borð við Finnbjörn A. Hermannsson, forseta Alþýðusambandsins, og Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Stefán Ólafsson, félagsfræðingur og starfsmaður Eflingar, hefur svo gert tilraunir til að ljá þessum málflutningi fræðilegan blæ.

En sá galli er á gjöf Njarðar er að fæst gögn styðja fullyrðingar um að hagnaðarhlutfall fyrirtækja hafi verið með óeðlilegum hætti undanfarin ár. Það sama er uppi á teningnum beggja vegna Atlantsála. Vissulega jókst hagnaður orku- og námuvinnslufyrirtækja vegna þess sérstaka ástands sem hefur skapast á alþjóðamörkuðum vegna innrásarinnar en engin innistæða er fyrir fullyrðingum um að eitthvert gróðabrall hafi átt sér stað á öðrum mörkuðum.

Þrátt fyrir að geta ekki vísað til einhverra greina sem staðfesta þetta reynir Ásgeir Brynjar að tína allt til sem hann getur fundið til að styðja við kenninguna um gróðaverðbólguna. Hæst rís hann í þeirri viðleitni sinni þegar hann skrifar orðrétt:

Það að sannanir skorti fyrir óeðlilegri hagnaðaraukningu fyrirtækja þýðir ekki að sannað sé að um hana sé ekki að ræða.

***

Á sama tíma og grein ritstjórans birtist í Vísbendingu komu Peningamál Seðlabankans út. Þar er leitað svara við þeirri spurningu hvort „græðgisverðbólgan“ hafi tekið sér bólfestu hér á landi. Í stuttu máli er svarið: Nei.

Eins og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á fundi þegar síðasta vaxtarákvörðun var kynnt eru launahækkanir megindrifkraftur verðbólgu hér á landi en ekki aukinn hagnaður fyrirtækja. Þó svo að hagnaður hafi vaxið þá hafi launakostnaðurinn vaxið enn meir undanfarin ár.

Í áðurnefndri grein Ásgeirs segir enn fremur:

„Því þarf að fylgjast áfram með hagnaðardrifinni verðbólgu í stað þess að vanmeta hana og halla sér bara að gamalgrónum frösum um víxlverkun launa og verðlags.“

Það er einmitt sem Seðlabankinn gerir í nýjustu Peningamálum. Niðurstaðan sýnir svart á hvítu að hagnaðardrifin verðbólga skýrir ekki þróunina hér á landi undanfarin ár.
Þannig segir í Peningamálum að framlag hagnaðar til verðbólgu hér á landi á árunum 2020-2022 sé minna en framlag launakostnaðar. Framlag launakostnaðar hafi til dæmis verið tæplega tvöfalt meira árið 2022 og framlag hagnaðar fyrirtækja til verðbólgu er jafnframt nálægt sögulegu meðaltali ef horft er til tímabilsins í heild frá því að farsóttin skall á.

Þá segir Seðlabankinn að álagning fyrirtækja hafi ekki aukist að neinu marki og ekki haft nein áhrif á þróun verðbólguhorfa. Enn fremur:

Ekki er hægt að gera ráð fyrir að svigrúm sé til lækkunar álagningarhlutfalls til móts við frekari hækkun jaðarkostnaðar, til að mynda í komandi kjarasamningum. Enn er spenna til staðar í þjóðarbúskapnum og á vinnumarkaði. Í slíku umhverfi er meiri hætta á að fyrirtæki verndi álagningarhlutföll sín og fleyti kostnaðarhækkunum út í verðlag og að launafólk reyni að endurheimta fyrra launahlutfall eins og áður var lýst.

Aukið taumhald peningastefnunnar vinnur gegn þessari þróun með því að draga úr eftirspurn sem gerir fyrirtækjum erfiðara um vik að fleyta kostnaði út í verðlag og neyðir þau til að taka á sig kostnaðarhækkanir í gegnum minni álagningu.

Um leið léttir minni eftirpurn á launaþrýstingi. Þannig beinir peningastefnan áhrifum kostnaðarhækkana frekar í gegnum raunhagkerfið með því að gefa fyrirtækjum engan annan kost en að endurheimta álagningarhlutföll með hagræðingu og aukinni framleiðni.“
***

Nú geta menn og munu sjálfsagt svara þessari röksemdafærslu á sama hátt og ritstjóri Vísbendingar: Þrátt fyrir að allar sannanir sýni að verðbólga liðinna ára eigi rót að rekja til launahækkana þá er þetta víst gróðaverðbólga - hvernig svo sem það kann að ganga upp.

En það er ekki boðleg umræða að hálfu fjölmiðla. Í þessu samhengi má rifja upp að Ragnar Þór, formaður VR, hefur í fjölda skipta komið fram í fjölmiðlum á undanförnum árum og verið tíðrætt um greiningarvinnu samtakanna sem sýnir að hagnaður allra fyrirtækja hafi aukist gríðarlega á undanförnum árum. Þessi greining hefur aldrei verið opinberuð og ekki er vitað hvort fjölmiðlar hafi borið sig eftir því að fá að sjá þessar niðurstöður sem eru þvert á gögn Seðlabankans. Útgáfa nýjustu Peningamála hlýtur að verða til þess.

Þá má einnig rifja upp greiningu Samkeppniseftirlitsins á framlegð á dagvörumarkaði sem mikið var gert með á árinu. Þannig kom fram í gögnum Samkeppniseftirlitsins að munurinn á vegnu meðaltali framlegðarhlutfalla íslenskra dagvöruverslana og meðaltali í Vestur-Evrópu hafi verið á bilinu 2-4% frá árinu 2018.

Samkeppniseftirlitið tekur sérstaklega fram að mismunurinn hafi farið lækkandi og er jafnframt með þann fyrirvara að stofnunin sé ekki reiðubúin að ábyrgjast að þau gögn sem miðað er við séu að fullu samanburðarhæf. Það blasir líka við að framlegðarhlutfallið mótast af þáttum eins og fjármagnsskipan einstakra fyrirtækja, vaxtarstigi og fleiri þáttum. Sum fyrirtæki eru þannig bara einfaldlega illa rekin ef því er að skipta. Þar af leiðandi er engan veginn hægt að fullyrða að framlegðarhlutfall verslana í dagvöru hér á landi gefi til kynna að eigendur þeirra séu að skara eld að eigin köku með óeðlilegum hætti.

Mikið var gert með þetta í fjölmiðlum og nýtti ASÍ niðurstöður sér óspart til að ala á tortryggni gagnvart dagvöruverslunum. Að vísu hröktu Samtök atvinnulífsins þessa framsetningu SKE en það fékk minni athygli fjölmiðla. Það sem kemur fram í nýjustu Peningamálum gefur fyllstu ástæðu til að fjölmiðlar spyrji forstjóra SKE um þær niðurstöður.

En það er ekki boðleg umræða að hálfu fjölmiðla. Í þessu samhengi má rifja upp að Ragnar Þór, formaður VR, hefur í fjölda skipta komið fram í fjölmiðlum á undanförnum árum og verið tíðrætt um greiningarvinnu samtakanna sem sýnir að hagnaður allra fyrirtækja hafi aukist gríðarlega á undanförnum árum. Þessi greining hefur aldrei verið opinberuð og ekki er vitað hvort fjölmiðlar hafi borið sig eftir því að fá að sjá þessar niðurstöður sem eru þvert á gögn Seðlabankans. Útgáfa nýjustu Peningamála hlýtur að verða til þess.

Þá má einnig rifja upp greiningu Samkeppniseftirlitsins á framlegð á dagvörumarkaði sem mikið var gert með á árinu. Þannig kom fram í gögnum Samkeppniseftirlitsins að munurinn á vegnu meðaltali framlegðarhlutfalla íslenskra dagvöruverslana og meðaltali í Vestur-Evrópu hafi verið á bilinu 2-4% frá árinu 2018.

Samkeppniseftirlitið tekur sérstaklega fram að mismunurinn hafi farið lækkandi og er jafnframt með þann fyrirvara að stofnunin sé ekki reiðubúin að ábyrgjast að þau gögn sem miðað er við séu að fullu samanburðarhæf. Það blasir líka við að framlegðarhlutfallið mótast af þáttum eins og fjármagnsskipan einstakra fyrirtækja, vaxtarstigi og fleiri þáttum. Sum fyrirtæki eru þannig bara einfaldlega illa rekin ef því er að skipta. Þar af leiðandi er engan veginn hægt að fullyrða að framlegðarhlutfall verslana í dagvöru hér á landi gefi til kynna að eigendur þeirra séu að skara eld að eigin köku með óeðlilegum hætti.

Mikið var gert með þetta í fjölmiðlum og nýtti ASÍ niðurstöður sér óspart til að ala á tortryggni gagnvart dagvöruverslunum. Að vísu hröktu Samtök atvinnulífsins þessa framsetningu SKE en það fékk minni athygli fjölmiðla. Það sem kemur fram í nýjustu Peningamálum gefur fyllstu ástæðu til að fjölmiðlar spyrji forstjóra SKE um þær niðurstöður.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðið. Þessi birtist í heild sinni í blaðinu sem kom út 29. nóvember.