Samspil loftslagsbreytinga, auðlindanýtingar og efnahags- og pólitísks óstöðugleika getur haft veruleg áhrif á framtíð alþjóðaviðskipta. Á skömmum tíma hefur geópólitísk áhætta orðið sífellt mikilvægari áhættuþáttur í rekstri fyrirtækja.

Hnattrænn óstöðugleiki, samkeppni um auðlindir á viðkvæmum svæðum og breytingar í alþjóðaviðskiptum ýta undir mikilvægi þess að fyrirtæki endurmeti áhættustýringu sína. Fyrirtæki sem ekki taka mið af þessum þáttum geta orðið berskjölduð fyrir sveiflum í aðfangakeðjum, hráefnaskorti og efnahagslegum áhrifum af stórveldastefnu.

Eftirspurn eftir mikilvægum hráefnum, svo sem lithiumi, nikkel og grafíti, mun margfaldast á næstu árum, sérstaklega í Evrópu. Þessi efni eru lykilþættir í orkuskiptum og tækniframleiðslu, sem gerir þau að eftirsóttum auðlindum. Bráðnun jökla og tækniframfarir hafa opnað nýja möguleika á vinnslu þessara efna, sem eykur spennu á alþjóðamörkuðum þar sem stórveldi keppast um að tryggja sér aðgang. Fyrirtæki þurfa því að gera sér grein fyrir áhrifum hugsanlegs hráefnaskorts á framleiðslu sína og leita lausna til að tryggja stöðugleika í aðfangakeðjum.

Efnahagsaðgerðir eins og þær sem hrundið hefur verið úr vör í Bandaríkjunum upp á síðkastið hafa haft veruleg áhrif á framleiðslu og aðfangakeðjur stórfyrirtækja. Auknir tollar og viðskiptahindranir hafa þvingað fyrirtæki til að endurskipuleggja framleiðsluferla sína og finna nýja birgja. Þetta getur leitt til aukins kostnaðar og flóknari dreifileiða, en einnig skapað tækifæri fyrir ný markaðssvæði og nýsköpun í framleiðsluferlum.

Stjórnendur þurfa að hafa skýra sýn á hvernig orkuskipti og alþjóðastjórnmál geta haft áhrif á starfsemi fyrirtækja. Með markvissri eftirfylgni á þróun aðfangakeðja og fjárfestingu í sjálfbærum lausnum geta fyrirtæki dregið úr áhættu og skapað sér samkeppnisforskot.

Íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir bæði áskorunum og tækifærum í þessu nýja landslagi. Með því að innleiða hringrásarferla, draga úr áhættu á hráefnisskorti og fjárfesta í sjálfbærum lausnum geta þau styrkt stöðu sína og aukið rekstraröryggi. Aðlögun að breyttu alþjóðlegu efnahagsumhverfi krefst framsýni og skýrrar stefnu í stjórnun geópólitískrar áhættu.

ngi.

Geópólitísk áhætta er í auknum mæli orðin hluti af sjálfbærniáhættu fyrirtækja. Hún getur haft bein áhrif á kolefnisspor fyrirtækja, aðgengi að sjálfbærum hráefnum og stöðugleika samfélaga sem fyrirtæki starfa í. Óstöðugleiki á heimsvísu getur truflað aðfangakeðjur, fækkað áreiðanlegum birgjum og aukið losun vegna breytinga í framleiðsluferlum. Fyrirtæki sem treysta á efni frá pólitískt viðkvæmum svæðum eða orkuauðlindir í áhættusömum löndum þurfa að gera sér grein fyrir hvernig slíkt getur haft áhrif á framtíðarrekstur þeirra.

Stjórnendur geta innleitt geópólitíska áhættu í almennt áhættumat fyrirtækja með því að:

  • Kortleggja aðfangakeðjur til að greina mögulegan pólitískan óstöðugleika á hráefnasvæðum eða framleiðslusvæðum.
  • Kortleggja krítíska birgja og innleiða fjölbreytni í birgjakeðjur til að minnka áhættu af því að vera háð einstaka löndum eða svæðum.
  • Meta hvernig alþjóðlegar efnahagsaðgerðir og pólitísk stefna gætu haft áhrif á rekstur fyrirtækisins.
  • Fylgjast með þróun í alþjóðaviðskiptum og loftslagsstefnu og aðlaga rekstur og stefnu í samræmi við hana.
  • Innleiða sjálfbærni skilyrði í innkaupastefnu og samstarf við birgja til að lágmarka óvænta áhættu.

Þegar horft er til framtíðar verður stefnumótun og markviss áhættustýring í sjálfbærnimálum lykilatriði í viðskiptum. Fyrirtæki sem leggja áherslu á sjálfbærar lausnir, stöðugleika í aðfangakeðjum og skilning á alþjóðlegri pólitík munu standa sterkari gagnvart sveiflum í efnahagsumhverfinu og eiga betri möguleika á vexti og viðgangi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Langbrókar.