Hrafnarnir sjá að þingstörfin hefjast af krafti þetta haustið. Fáir þingmenn standast hins vegar Þórhildi Sunnu Ævarsdóttir þegar kemur að elju og vinnusemi – sérstaklega utan landsteinanna. Píratinn knái hóf þingstörfin í þessari viku á því að smella sér til Sófíu í Búlgaríu. Erindið er ekki að taka hús á Ásdísi Rán Gunnarsdóttir og nýjum kærasta hennar.

Nei, samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis er Þórhildur í „rannsóknarferð á vegum Evrópuráðsþingsins vegna skýrslu um þróun mála í Búlgaríu“. Hrafnarnir geta vart beðið eftir niðurstöðum þeirrar rannsóknar. Þórhildur er víðförul með afbrigðum. Það sem af er ári hefur hún varið þremur vikum erlendis á kostnað þingsins. Fyrir það hefur hún þegið tæpar tvær milljónir króna i dagpeninga. Það er hálfri milljón meira en allt árið í fyrra og verður það að teljast nokkuð vel af sér vikið.

Huginn og Muninn er einn af föstum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. september.