Þrátt fyrir að viðbótarlífeyrissparnaður sé einföld og nær áhættulaus leið fyrir launafólk til að auka ævitekjur sínar, er þátttaka minni en ætla mætti miðað við þann ábata sem felst í sparnaðinum. Taki fleiri þátt mun það styrkja fjárhagslegt öryggi íbúa hér á landi á efri árum, sérstaklega þeim sem höllum fæti standa, og draga úr álagi á almannatryggingakerfið til framtíðar. Í þessari grein er lögð til einföld kerfisbreyting til þess að stuðla að aukinni þátttöku sem styrkir samfélagið okkar til lengri tíma litið.
Fyrirkomulagið bregst þeim sem þurfa mest á því að halda
Rannsóknir benda til þess að viðkvæmir hópar, svo sem tekjulágir einstaklingar og margir erlendir ríkisborgarar, nýti sér sjaldnast þennan rétt samkvæmt núverandi fyrirkomulagi. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar Ásgeirs Daníelssonar, Rannveigar Sigurðardóttur og Svövu J. Halldórsdóttur (2023) sýna að þátttaka er dræm í þessum hópum hér á landi, eða undir 60% meðal tekjulægsta fimmtungsins og 10% meðal erlendra ríkisborgara í hlutastarfi. Til samanburðar var þátttaka rúmlega 75% meðal fullvinnandi og 40% í hlutastörfum. Sú breyta sem hafði hvað mest áhrif á þátttöku voru tekjur en þátttaka jókst eftir því sem þær hækkuðu.
Ástæður þessa geta verið margvíslegar, t.d. skortur á upplýsingum, ákvarðanafælni, lítið vægi framtíðartekna, skortur á ráðstöfunartekjum eða einfaldlega sú staðreynd að fólk þarf sjálft að óska eftir þátttöku. Miðað við það hversu ábatasamur fjárfestingakostur þetta er fyrir launafólk vekur það athygli hvers vegna ekki fleiri nýta sér þennan valkost og vekur mann til umhugsunar hvort fyrirkomulagið sé gallað að þessu leyti.
Góð reynsla af sjálfgefnu vali erlendis
Í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur sjálfvirk skráning í lífeyrissparnað, með skýrum möguleika á að hafna þátttöku, reynst áhrifarík. Í Bretlandi var tekin upp sjálfvirk skráning í tilteknum flokkum lífeyrissparnaðar fyrir alla starfsmenn á árinu 2012 en á um áratug jókst þátttaka úr um 55% í um 90% (Department for Work and Pension, 2023). Svipuð áhrif er að finna í niðurstöðum rannsóknar Madrian og Shea (2001), þar sem þátttaka nýráðinna starfsmanna stórfyrirtækis jókst úr 37% í 86% við innleiðingu sjálfgefins valkostar.
Niðurstöðurnar sýna að sjálfgefið val, með skýrum möguleika á að hafna þátttöku, virki líklegast betur fyrir þorra starfsfólks en núverandi fyrirkomulag. Ekki síst hjá viðkvæmum hópum.
Fyrirtæki og opinberir aðilar geta leitt breytinguna
Til þess að stuðla að aukinni þátttöku launafólks í viðbótarlífeyrissparnaði er hér lögð fram einföld og auðframkvæmanleg kerfisbreyting sem hefur sannað sig erlendis. Viðbótarlífeyrissparnaður verði sjálfgefið val í öllum nýjum ráðningarsamningum, starfsfólk geti áfram afþakkað þátttöku en þurfi þá að merkja það sérstaklega.
Með þessari breytingu má stuðla að hærri ævitekjum fyrir þá einstaklinga sem hvað mest þurfa á því að halda auk þess sem stoðir lífeyris- og almannatryggingakerfisins myndu styrkjast. Þótt hér sé lögð til kerfisbreyting, geta bæði fyrirtæki og opinberir aðilar tekið frumkvæðið og innleitt breytinguna án þess að bíða eftir aðgerðum löggjafans.
Höfundur er hagfræðingur.