Vestræn heilbrigðiskerfi eru undir miklu álagi, þar sem sífellt fleiri þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og kerfið á að sinna sífellt breiðari skjóstæðingahópi. Þó augljós lausn á þeim vanda væri að fjölga heilbrigðisstarfsmönnum, er það ekki alltaf raunhæfur kostur, sérstaklega á Íslandi þar sem skortur á mannafla og vilji til stækkunar kerfisins setur ákveðin takmörk. En hægt er að beina sjónum að annarri leið; að nýta sjálfvirkni og gervigreind til að létta á fólki og ferlum og auka skilvirkni í heilbrigðiskerfinu.

Sjálfvirknivæðing í heilbrigðisþjónustu með aðstoð gervigreindar gæti dregið úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk með því að einfalda og flýta fyrir verkefnum sem eru bæði tímafrek og endurtekin, til dæmis pappírs og tölvuvinnu eins og skráningu gagna, samskipta milli deilda og greiningar heilbrigðisupplýsinga. Þannig mætti gera heilbrigðisþjónustu sveigjanlegri án þess að fórna gæðum þjónustunnar eða öryggi sjúklinga.

Á Íslandi hafa sprotafyrirtæki og veitendur heilbrigðisþjónustu stigið fyrstu skrefin í þessa átt. Til að mynda er unnið að þróun lausna sem miða að því að sjálfvirknivæða ýmsa þætti þjónustunnar, að nýta stafræn kerfi sem flýta fyrir úrvinnslu beiðna frá sjúklingum og styðja við ákvarðanatöku lækna. Þegar fram líða stundir gætu slíkar lausnir einnig nýst til að greina flókna sjúkdóma hraðar eða aðstoða við forgangsröðun í bráðaaðgerðum.

En þrátt fyrir kosti sjálfvirknivæðingar er nauðsynlegt að huga að áskorunum sem henni fylgja. Persónuvernd og öryggi gagna eru lykilatriði, sérstaklega í heilbrigðisþjónustunni þar sem unnið er með viðkvæm gögn. Þá þarf að tryggja að sjálfvirknilausnir séu aðgengilegar og virki vel í íslenskum aðstæðum, þar sem sérstakar áskoranir, eins og fámenni og tungumálið, krefjast sértækra lausna. Í haust kynnti Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið aðgerðaráætlun stjórnvalda um notkun gervigreindar, þar sem lögð er áhersla á siðferðileg, lagaleg og hagnýt viðmið. Þessi áætlun setur tóninn og rammar inn ábyrga innleiðingu sjálfvirkra hugbúnaðarlausna í íslensku samfélagi, þar á meðal í heilbrigðisþjónustu, og vert er að fylgja henni eftir á næstu árum.

Á ráðstefnunni AI & Society: Bridging Innovation and Responsibility, sem haldin verður í Háskólanum í Reykjavík þann 17. janúar 2025, verður fjallað um hvernig Ísland getur nýtt sjálfvirknivæðingu á ábyrgan hátt til að styrkja heilbrigðisþjónustuna. Sérfræðingar munu ræða bæði þau tækifæri sem sjálfvirknivæðing skapar og þær áskoranir sem fylgja, með sérstakri áherslu á að finna jafnvægi milli nýsköpunar og mannlegra gilda í íslensku heilbrigðiskerfi. Þetta jafnvægi snýst um hvernig sjálfvirknivæðing hugrænnar vinnu með gervigreind getur létt álagi af heilbrigðisstarfsfólki, án þess að draga úr mikilvægi mannlegs þáttar í umönnun og samskiptum við sjúklinga. Ráðstefnan verður því mikilvægur vettvangur til að kafa dýpra í þessar spurningar og fyrir framtíðarþróun heilbrigðiskerfisins, þar sem bæði tæknin og mannleg gildi eiga samleið, og er því ómissandi fyrir alla sem hafa áhuga á að móta framtíð heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Höfundur er lektor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík.