Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Diljá Mistar Einarsdóttir þingmanns Sjálfstæðisflokksins um fjölgun opinberra starfsmanna er athyglisvert og ætti að liggja til grundvallar þegar nauðsynleg umræða um straumlínulögun og skilvirkni í ríkisrekstrinum. Fram kemur í svari ráðherra að opinberu starfsfólki hafi fjölgað um 2700 frá árinu 2012 eða um 19%.

***

Er þessi þróun í engum tengslum við almenna þróun á vinnumarkaði eða fólksfjöldaþróun í landinu á tímabilinu. En þessi fjölgun helst í hendur við viðstöðulausa aukningu ríkisútgjalda á þessum tíma. Týr telur enga ástæðu til að ætla að óstöðvandi fjáraustur og sífelld fjölgun opinberra starfsmanna hafi leitt til betri þjónustu hins opinbera.

***

Ástæðan er ekki síst að lungað af þessari fjölgun hefur farið í að ráða millistjórnendur og framtíðarfræðinga af öllum stærðum og gerðum. Birtingarform þessa sást í fjölmiðlum í síðustu viku þar sem sagt frá afeitrunardeild ungmenna á Landspítalanum sem  tók til starfa fyrir tveimur árum. Opnun deildarinnar var kynnt sem framsækinni lausn við að koma ungu fólki í heljargreipum á rétta braut. Nú þremur árum seinna hafa þrjú ungmenni nýtt sér úrræðið en ekki 500 eins og lagt var upp með. Ástæðuna má væntanlega rekja til þess að það var hannað af sérfræðingum á góðum launum í Landspítalanum sem eru í engum tengslum við þau vandamál sem þarf að leysa. Kostnaðurinn við þetta gagnslausa úrræði hleypur á hundruðum milljóna.

***

Týr telur einsýnt að um þetta sé fjöldamörg dæmi að finna innan ríkisrekstursins. Eigi að síður virðist vera þverpólitísk sátt á Alþingi um að lausnin á öllum vanda sem upp kemur vegna lélegrar þjónustu hins opinbera felist í útgjaldaaukningu og aukinni skattheimtu á heimili og fyrirtækja til að fjármagna fjárausturinn. Þetta gengur ekki til lengdar.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.