Óðinn fjallaði í síðustu viku í Viðskiptablaðinu um viðtal Gísla Freys Valdórssonar við Bjarna Benediktsson.
Þar var margt rætt og Bjarna til hróss þá viðurkenndi hann ófá mistök í ríkisstjórnarsamstarfi vinstri stjórnarinnar sem nú situr.
Einu hjó Óðinn sérstaklega eftir í máli Bjarna. Forsætisráðherrann sagði að með því breyta útlendingalögum muni útgjöld til málaflokksins minnka mjög mikið. Sem er rétt.
Það sem hann minntist hins vegar ekki að sá gríðarlegi fjöldi hælisleitenda sem hefur komið undanfarin ár, meðan ríkisstjórnin svaf á verðinum, mun kosta íslenska gríðarlega fjárhæðir.
Óðinn fjallar um málið í blaðinu sem kemur út á morgun og leggur mat á kostnaðinn og byggir þar á skýrslum danska fjármálaráðuneytisins.
Hér á eftir ef pistill Óðins frá 22 maí í fullri lengd.
Gísli, Bjarni Ben og hugmyndir um hugmyndafræði
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins kom í Þjóðmál hjá Gísla Frey Valdórssyni fyrir helgi. Óðni fannst Gísli Freyr fara heldur mjúkum höndum um formanninn, sérstaklega í ljósi þess að flokkurinn hefur aldrei mælst með minna fylgi samkvæmt Gallup en nú, eða 18,0%.
Í næstum eins og hálfs tíma þætti var margt sem hægt var að taka undir með Bjarna. Svo var annað sem Óðinn er honum ósammála um.
***
Fjármál stjórnmálaflokkanna
Bjarni vék einnig að því sem hann taldi hafa verið mistök hjá sér og ríkisstjórnarflokkunum þremur.
Byrjum á því. Bjarni telur að fjármögnun stjórnmálaflokkanna hafi haft vond áhrif á þátttöku í stjórnmálastarfi og kosningum.
„Önnur ástæðan er við gengum of langt í breytingum á fjármögnun stjórnmálaflokkanna. Flokkur getur hallað sér aftur í sætinu bara beðið eftir tékkanum frá fjárlögum.“
Innsk. Gísli Freyr: „Við ríkisvæddum stjórnmálaflokkanna.“
„Já það við gengum allt of langt í því. Það er bara niðurstaðan. Ég skil vel hugmyndafræðina á bak við þetta á sínum tíma. En mér fannst við ganga of langt. Þetta er enn einn svona pendúllinn sem fór of langt í hina áttina.
Við ættum að vinda ofan af þessu og láta flokkana dálítið hafa fyrir því að þurfa að sækja stuðning og rækta samtalið við fólkið í landinu. Fyrir utan það að það er ekki sanngjarnt að svona hátt hlutfall af rekstrarkostnaði flokkanna komi beint af fjárlögum úr vasa skattgreiðenda. Það finnst mér bara ekki.“
Ríkisstjórnin sem nú situr tók við árið 2017 undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Það ár voru framlög til stjórnmálaflokka 397 milljónir króna. Þegar fjármálaráðherrann Bjarni lagði fram fjárlög 2018 hækkuðu framlögin í 868 milljónir króna. Það er meira en tvöföldun. Fjármálaráðherrann Bjarni gekk enn lengra og árið 2019 og þá fóru framlögin í 977 milljónir á núvirði.
Velti Bjarni því ekki fyrir sér þegar hann hækkaði styrkina til flokkanna um 54% árið 2018 og 59% árið 2019 – frá árinu 2017 – hvort það stæðist skoðun? Fyrir utan það hvort ríkissjóður ætti fyrir því, en það kom strax í ljós 2019 að svo var ekki.
Er það ekki augljóst að þetta hefði akkúrat þau áhrif sem Bjarni gerir að umtalsefni í Þjóðmálaþættinum?
***
Útlendingamál
Bjarni viðurkenndi einnig að hann og ríkisstjórnin hefðu brugðist of seint í hælisleitendamálum þegar hingað fór fólk að streyma til landsins.
„Við fengum síðan flóð af hælisleitendum hérna inn. Ef menn eru að horfa á afganginn í ríkisfjármálum þá bið ég menn um að taka tillit til þess hversu gríðarlegur þrýstingur hefur verið á landamærin og hversu mikið kostnaður okkar vegna þess málaflokks hefur vaxið á skömmum tíma.
Þetta er bara verulegur hluti af þeim halla sem ríkið er að glíma við þess vegna. Og við erum að bregðast við. Við ætlum að ná tökum á þessum málaflokki og erum að fylgja góðum fordæmum annars staðar frá og ég sé breiða samstöðu í ríkisstjórninni um að bregðast strax við og það mun skila árangri.“
Síðar í samtalinu segir Bjarni:
„Að sums staðar hafa ríkisútgjöldin vaxið meira en ég hefði viljað sjá. Ég var að tala um hælisleitandamál. Ég held að við hefðum getað gert betur fyrr. En það er bara verið að bregðast við því með því að taka á málunum af festu núna.“
***
Straumur hælisleitenda til Íslands jókst ár frá ári frá árinu 2015. Það er hægt að vera með alls kyns reiknikúnstir í þeim efnum en mikilvægast er að horfa til þeirra hópa sem aldrei greiða nokkuð til samneyslunnar í löndunum sem við viljum bera okkar saman við.
Besta og skýrasta dæmið er frá Danmörku. Meðan íslenska ríkisstjórnin lokaði augunum komu hingað til lands hundruð Palestínumanna og fólk frá svokölluðum MENAPT-löndum (uppruni í Mið-Austurlöndum og Norður Afríku auk Pakistan og Tyrklands).
Aðallega menn – karlmenn. Skýrslur dönsku hagstofunnar og danska fjármálaráðuneytisins sýna að um helmingur þessara manna vinna ekki heldur þiggja bætur.
Þær sýna okkur líka að þessir karlmenn eru um fjórum sinnum líklegri til að hljóta refsidóma en til dæmis Pólverjar, sem er fyrirmyndarþegnar.
Þessar skýrslur sýna okkur líka að þeir sem koma frá þessum upprunalöndum fá á öllum æviskeiðum meira frá hinu opinbera en þeir greiða til. Ólíkt öðrum upprunalöndum þeirra sem flust hafa til Danmerkur.
Voru menn vakandi yfir vandanum? Eru þetta ekki heldur aumar afsakanir hjá formanni Sjálfstæðisflokksins?
***
Hlutföll ríkisskulda
Bjarni ræddi um að skuldahlutföll ríkisins hafi ekki verið lægri í tíu ár. Það er rétt. Eins og Bjarni sagði í þættinum þá fékk ríkissjóður stöðugleikaframlög fyrir tæpum tíu árum. Bjarni giskaði á að ríkissjóður hafi fengið, núvirt, um 700 milljarða króna í framlög frá kröfuhöfum.
Óðni sýnist fjárhæðin vera um 630 milljarðar og byggir þar á tölum úr skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2020 um Lindarhvol.
Óðinn man ekki eftir nokkrum manni sem gagnrýndi þátttöku Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnunum árin 2013-2017, þegar stöðugleikaframlögin komu í ríkiskassann.
Óðinn man heldur varla eftir nokkru manni sem ekki hefur gagnrýnt þátttöku Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu sem nú er. Nema kannski ráðherra flokksins og einstaka fylgitungl.
Það er óskemmtileg tilviljun að hallarekstur þessarar ríkisstjórnar frá árinu 2019, ári fyrir Covid, skuli næstum nákvæmlega vera sama talan og stöðugleikaframlögin.
Þar sannast hið fornkveðna, það er auðveldara eyða en afla.
***
Hugmyndafræðin
Gísli Freyr spurði Bjarna hvort honum þætti ósanngjarnt að hann og fleiri, og væntanlega margir hægri menn, gagnrýndu flokkinn fyrir skort á stefnu eða fylgja ekki stefnu flokksins.
„Auðvitað er það þannig að við erum ekki hafin yfir gagnrýni. Ég bara gengst fyllilega við því að við höfum þurft að gera ákveðnar málamiðlanir. En ég bið menn samt um að svona líta aðeins upp úr hugmyndafræðilega leiðarvísinum sínum og aðeins lyfta höfðinu og líta í kringum sig og spyrja.
Hvar erum við stödd svona lífskjaralega séð? Er fólk með vinnu? Hvernig er kaupmáttur heimilanna? Er einhver kraftur í atvinnulífinu? Er ríkissjóður á leiðinni fram af hengiflugi eða getur verið að það sé bara allt í þokkalegu lagi? Erum við með stærri gjaldeyrisvaraforða en nokkru sinni fyrr? Er staða Íslands í útlöndum betri heldur en nokkru sinni áður?“
Er það ekki svo að ef að Sjálfstæðishugsjónin hefði ráðið för hefðum við aldrei lent í þeim ógöngum sem við höfum lent í varðandi fjármál stjórnmálaflokkanna? Mun einhvern tímann takast að vinda ofan af þeirri vitleysu?
Er það ekki svo að ef að sjálfstæðishugsjónin hefði ráðið för hefðum við aldrei lent í þeim ógöngum sem við höfum lent í útlendingamálum? Að hleypa hingað hundruðum manna þar sem um helmingur ætlar sér ekki að taka þátt í samneyslunni – ef marka má reynslu Dana – en ætla hins vegar að njóta hennar.
***
Óðinn hefur aldrei heyrt áður um hugmyndafræðilega leiðarvísa. Hann hefur hins vegar heyrt um þá sem eiga sér hugmyndafræði og hugsjón sem nefnist sjálfstæðisstefnan.
Sú stefna er ekki hentistefna. Sú stefna byggist ekki á kerfum heldur á einstaklingum. Sú stefna byggist ekki á því að eyða á kostnað komandi kynslóða.
Sú stefna er ekki framsóknarstefnan. Þar sem viðskiptamódelið er að kaupa atkvæði með ríkisfé.
Það er hins vegar rétt hjá Bjarna Benediktssyni að staðan er góð á Íslandi þrátt fyrir ríkisstjórnina sem nú situr. Þar má meðal annars þakka ríkisstjórnunum sem Bjarni sat í frá 2013-2017.
En þessi ríkisstjórn sem nú situr er líklega versta ríkisstjórn sem setið hefur á Íslandi.