Að mati Eflingar eru kjarasamningar, sem gerðir eru án aðkomu þeirra, bara plat. Ekki pappírsins virði. Þvingaðir upp á hálfgerða þræla með átthagafjötra af auðmönnum, sníkjudýrum sem eru að leika sér, svo vitnað sé í orð stjórnarmanns í Eflingu.

Kjarasamningar á veitingamarkaði, sem Efling á ekki aðkomu að, eru ólöglegir og því verður að grípa til allra ráða, og rúmlega það, til að koma í veg fyrir að eftir þeim sé farið. Stéttarfélag sem gerir kjarasamninga við aðra en Eflingu, er gervistéttarfélag. Þeir sem semja við annað stéttarfélag en Eflingu eru óheiðarlegir og þeim ber að refsa, helst með gjaldþroti, lágmark með mannorðsmissi.

Orðræða forsvarsmanna Eflingar hefur verið með ólíkindum, yfirlýsingar þeirra stóryrtar og kjarninn hefur verið; kjarasamningar SVEIT, Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, við stéttarfélagið Virðingu, er kolólöglegur og allir sem koma að honum eru lögbrjótar.

Upphrópanir og ósannindi

Í stað þess hins vegar að fylgja þeirri sannfæringu sinni eftir með því að gera það sem réttaríkið gerir ráð fyrir, að fara dómstólaleiðina, er allt annað en það gert. Upphrópanir við fjölmiðla, fréttatilkynningar senda á fjölmiðla þar sem ósannindi eru ítrekuð hvað eftir annað, einstaka veitingamenn nafngreindir og þeir staðir sem þeir reka settir í kastljósið og hávær mótmæli með ofbeldisfullri orðræðu við veitingastaði í fullkomnu óleyfi haldin með gjallarhornum og gulum vestum. Allt er gert, annað en að standa við stóryrðin um lög og reglu.

Er nema von að spurt sé; ef sannfæringin er svona mikil um lögbrot og lögleysu, hvers vegna fer Efling ekki dómstólaleiðina? Til að fá úr því skorið hvort hér ríki félagafrelsi, samningafrelsi og hvort aðilar á veitingamarkaði megi gera kjarasamning sín á milli án aðkomu Eflingar?

Efling missir milljarð

Sagt hefur verið að forsvarsmenn Eflingar þrífist á ósætti, átökum og einelti. Einelti formanns Eflingar gagnvart þeim sem ekki leggjast flatir þegar hún heimtar það heldur fara með sín félagsgjöld annað er með ólíkindum. En skýringuna má líklega rekja beint til þess að Efling missir um milljarð króna við það að veitingamenn semji á sínum markaði. Og Efling missir völd yfir mörg hundruð starfsmönnum.

Og fyrst minnst er á einelti, er ekki úr vegi að rifja upp að hægri hönd formannsins, þáverandi framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson, sem í tilkynningum vegna kjarasamnings SVEIT og Virðingar, virðist svo afskaplega annt um velferð og jafnrétti, stundaði nefnilega einelti... á eigin vinnustað. Hann hrökklaðist úr starfi fyrir einelti og kvenfyrirlitningu, eins og kom fram í fréttum fyrir tveimur árum. Í framhaldinu hrökklaðist formaðurinn úr starfi, en bæði snéru þau aftur, skapverri og illgjarnari en nokkru sinni fyrr, eins og góður maður sagði, sem formaður og sviðsstjóri. Og nú á að gera enn meiri skaða, valda atvinnuleysi, gjaldþrotum og stórfelldum tekjumissi hjá þeim sem ekki sýna þeim nægilega auðsveipni. Allt undir formerkjum þess að þeim sé svo annt um lögin í landinu.

Og þá er spurt að nýju. Af hverju fer Efling ekki eftir lögum og reglum og fer dómstólaleiðina í stað gjallarhorna og gulra vesta? Það skyldi þó ekki vera að Efling óttist að ef þau geri það, komi sjálfur sannleikurinn komi í ljós?