Álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem var hér á landinu á dögunum er um margt áhugavert innlegg í umræðuna um efnahagsmál. Að öllu óbreyttu verður gengið til alþingiskosninga á næsta ári og viðbúið er að efnahagsmálin verði efst á baugi í kosningabaráttunni.
Eins og staðan er núna hefur meirihlutinn á Alþingi og stjórnarandstaðan brugðið sér í gervi jólasveinanna tveggja sem bandaríski blaðamaðurinn Jude Wanniski fjallaði um á sínum tíma. Fyrri jólasveinninn, stjórnarmeirihlutinn, hefur staðið fyrir gegndarlausri og ósjálfbærri aukningu ríkisútgjalda um árabil. Eina gagnrýni seinni jólasveinsins, stjórnarandstöðunnar, á þessa stefnu er að ekki sé nóg að gert og auka þurfi útgjöld enn frekar.
Stjórnarandstöðuflokkar á borð við Samfylkinguna, sem fer með himinskautum í könnunum, boða frekari aukningu ríkisútgjalda um tugi milljarða á komandi árum. Þetta á allt að fjármagna með hækkun skatta og horft er til fjármagnstekna og auðlindagjalda í þeim efnum.
Ekki er eftir neinu að slægjast í þeim efnum. Skattspor útvegsins hleypur nú þegar á tugmilljörðum króna á ári hverju. Það er barnalegt að halda því fram að hægt sé að auka það enn frekar til að standa undir tugmilljarða útgjaldaaukningu ríkisins til viðbótar.
Fjármagnstekjur einstaklinga námu samkvæmt Hagstofunni um 240 milljörðum í fyrra. Fólk eldra en sextugt greiddi meira en helminginn af þessari upphæð í fjármagnstekjuskatt. Stærsti hluti þessa hóps eru ellilífeyrisþegar. Er þetta sá hópur sem horft er til þegar boðaðar eru stórfelldar hækkanir á fjármagnstekjuskatti til að fjármagna frekari ríkisútgjöld.
Sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gera sér grein fyrir að hugmyndir stjórnarandstöðunnar um skattahækkanir á fjármagnstekjur og enn hærri auðlindagjöld standast ekki skoðun. Þeir telja nauðsynlegt að sýna aðhald við stjórn ríkisfjármála og leggja til að þeim geirum sem nú eru í neðra þrepi virðisaukaskattskerfisins verði fækkað. Skiptir matvörumarkaðurinn og ferðaþjónustan mestu í þessu samhengi. Augljóst er að ekki verði komist hjá þessu ef stjórnmálamenn ætla að halda ótrauðir áfram að auka ríkisútgjöld frá ári til árs.
En sú tillaga sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem mestu máli skiptir í þessu samhengi er að einfaldlega verði hætt við þær hækkanir sem voru fyrst boðaðar í fjármálaáætlun áranna 2023-2027 og er haldið til streitu í uppfærðri fjármálaáætlun sem kynnt var á dögunum.
Í fyrri fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að auka útgjöld um 300 milljarða á tímabilinu 2023 til 2027. Gert er ráð fyrir sambærilegri aukningu í fjármálaáætluninni sem lögð var fram á dögunum.
Öllum má vera ljóst að ekki verður komist hjá því að endurskoða þessa útgjaldaaukningu. Ekki síst í ljósi þess að allar líkur eru á því að áætlanir um tekjur ríkissjóðs muni ekki standast vegna breytinga á hagsveiflunni og hallarekstur ríkissjóðs verði mun meiri en nú er gert ráð fyrir. Í þessu samhengi er rétt að benda á nýjustu gögn um leiðandi hagvísa greiningarfyrirtækisins Analytica sem gefnir voru út í vikunni.
Þeir héldu áfram að lækka í apríl – nánar tiltekið fjórir af sex undirliðum. Þetta bendir til þess að umtalsvert minni hagvöxtur sé í kortunum en margir hafa til þessa spáð og ekki er hægt að útiloka samdráttarskeið að svo komnu máli. Reynslan sýnir umtalsverða fylgni milli leiðandi hagvísa og þróunar landsframleiðslunnar. Alla jafna hefur þróun leiðandi hagvísanna verið hálfu ári á undan þróun landsframleiðslunnar.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á að nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld að hafa borð fyrir báru í ríkisfjármálum vegna óvissu um áframhald Reykjaneselda og í alþjóðamálum. Því fer fjarri í dag enda er boginn spenntur til hins ýtrasta þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs.
Því fyrr sem menn átta sig á þeirri stöðu því betra.
Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 29. maí 2024.