Gullhúðun hefur verið til umræðu að undanförnu. Hugtakið vísar til þess þegar íslenskir embættismenn taka gerðir og reglur Evrópusambandsins og gera þær enn meira íþyngjandi en upphaflega stóð til.

Þetta á sér fjölmörg birtingarform en sami þráðurinn rennur gegnum þau öll: Að bjarga náttúrunni.Innleiðing á sjálfbærniregluverki hér á landi fól af einhverjum óskiljanlegum ástæðum í sér kvaðir á jafnvel lítil fjölskyldufyrirtæki  fyrirtæki að skila sjálfbærniskýrslum. Evrópusambandið vildi ekki banna afhendingu plastpoka hér á landi en það gerðu hins vegar íslenskir embættismenn.

Þetta lætur embættismönnum líða vel en er öllum öðrum til ama, leiðinda og kostnaðar. Viðskiptaráð metur að kostnaður íslensks atvinnulífs af gullhúðun í tengslum við innleiðingu á sjálfbærniregluverkinu  sé um tíu milljarðar á ári. En staða umhverfismála breytist ekkert þó svo að Stigaleiga Suðurnesja skili reglulega inn sjálfbærniskýrslu, svo eitthvað dæmi sé tekið.

***

Samtök iðnaðarins hafa vakið athygli á þessu undanförnu og teikn eru á lofti um að stjórnmálamenn séu að átta sig á vandamálinu. En forsvarsmenn Landverndar, öflugustu hagsmunasamtök landsins, eru risnir á afturlappirnar. Tý sýnist að málflutningur þeirra byggi á þeirri grunnhugsun að ef reglur eru settar í þágu loftlagsmála þá er það gott algjörlega óháð kostnaði og hvort þær þjóni einhverjum tilgangi í loftlagsmálum.

Þorgerður María Þorbjarnardóttir formaður Landverndar ritaði grein á Vísi á dögunum. Þar réttlætti hún gullhúðun reglugerða vegna þess að það sé verið að þrífa upp „eitt allsherjar jarðefnaeldsneytis- og auðlindafyllerí“.

Þetta er ákaflega barnalegur málflutningur. Ekki síst í ljósi þess að jarðefnaeldsneyti stendur einungis undir níu prósentum af orkunotkun Íslendinga.

***

Gullhúðar reglugerðir bjarga ekki umhverfinu rétt eins og leiðin til helvítis er vörðuð góðum setningi. Ágætt dæmi um þetta er þegar skipafélögin voru sett undir ETS-kerfið í fyrra.

Það á að vera hvati til þess að minnka losun vegna farmflutninga. Sá hvati var til staðar fyrir en vandinn snýst um að lausnir til orkuskipta í skipaflutningum eru enn óhagkvæmar og dýrar og engir innviðir til staðar hér á landi til að fóstra þá vegferð. Meðan svo er þá veldur þetta eingöngu hærra vöruverði og breytir engu fyrir losun.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom 7. febrúar 2024.