Viðskiptaráð sendi nýlega frá sér úttekt um kostnað íslenskra fyrirtækja vegna innleiðingar stjórnvalda á sjálfbærniregluverki Evrópusambandsins. Um er að ræða tilskipun sem kveður á um birtingu tiltekinna fyrirtækja á ófjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um fjölbreytileika.

Þetta er sem sagt tilskipunin sem hefur leitt til þess að sjálfbærni- og samfélagsskýrslum íslenskra fyrirtækja hefur rignt yfir landsmenn undanfarin ár. Eins og fram kemur í úttekt Viðskiptaráðs þá kann að vera að markmiðið sé göfugt en eigi að síður er full ástæða til að velta fyrir sér hvort þörf sé á öllum þessum skýrslum og hvaða árangri þeim er ætlað að skila öðrum en að skapa farveg dyggðaskreytinga.

En þá komum við að þætti íslenskra stjórnvalda við innleiðingu tilskipunarinnar. Íslenskir ráðamenn ákváðu að gerast kaþólskari en páfinn í þessum efnum og innleiddu tilskipunina með mun meira íþyngjandi hætti en á meginlandi Evrópu. Í úttektinni segir:

Tilskipunin fjallar um birtingu tiltekinna fyrirtækja á ófjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um fjölbreytileika. Í Evrópu nær hún til stórra eininga sem eru tengdar almannahagsmunum, þannig þurfa bæði skilyrði að vera uppfyllt til að falla undir skyldu tilskipunarinnar. Við innleiðingu hérlendis var gildissviðið útvíkkað verulega með því að einingar tengdar almannahagsmunum voru felldar undir ákvæðið óháð fjölda starfsmanna, veltu og stærð, ásamt því að stór félög féllu undir ákvæðið, í víðari merkingu en tilskipunin gerði kröfu um eða með starfsmannafjölda yfir 250 í stað 500. Tæplega átta sinnum fleiri íslensk fyrirtæki falla því undir gildissvið regluverksins vegna óþarflega íþyngjandi innleiðingar hérlendis. Áætlað er að þetta óþarflega íþyngjandi regluverk hafi kostað íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða króna – kostnað sem önnur fyrirtæki innan ESB þurfa ekki að bera.“

Eins og fram kemur í viðtali við Öglu Eir Vilhjálmsdóttur, lögfræðing Viðskiptaráðs, í Dagmálum Morgunblaðsins hefðu tæplega fjörutíu íslensk fyrirtæki fallið undir tilskipunina og þurft að skila reglulegum skýrslum um ófjárhagslegar upplýsingar. En samkvæmt svörum úr stjórnkerfinu þótti íslenskum embættismönnum asnalegt að svona fá fyrirtæki í örríkinu þyrftu að gangast undir þessa kvöð.

Agla segir:

Já, við höfum allavega heyrt að það sem var á bak við þetta var að stjórnvöldum fannst þetta einfaldlega of fá fyrirtæki sem þurftu að fylgja þessu. Það hafi bara verið hugs-un-in, að þessi 35 félög væru bara of fá fyrirtæki og við gætum bara gefið aðeins í og látið fleiri fyrirtæki fylgja þessu.“

Þarna er þá komin ástæðan fyrir því að millistór fyrirtæki í Ármúla og á Völlunum í Hafnarfirði þurfa nú að gefa út samfélags- og sjálfbærniskýrslur með tilheyrandi kostnaði. Og þarna er væntanlega komin ástæðan fyrir því að Reykjavík tók upp á því fyrir nokkrum árum að halda tölfræði yfir kynjaskiptingu hunda í borginni.

Þetta afhjúpar algjört skilningsleysi stjórnvalda á hversu íþyngjandi og kostnaðarsamt það er að innleiða Evróputilskipanir með mun stífari hætti en annars staðar á hinum sameiginlega markaði. Það skekkir samkeppnistöðu fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og skapar óþarfa kostnað.

Athygli vekur að í úttekt Viðskiptaráðs kemur fram að sama gildissvið var lagt til grundvallar innleiðingu flokkunarreglugerðarinnar sem innleidd var á þessu ári og tók gildi 1. júní – en gildissvið flokkunarreglugerðarinnar (sem innleidd var með lögum um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu) er þannig einnig víðtækara hérlendis en annars staðar í Evrópu. Þannig að greinilegt er að menn eru að halda áfram að feta þessa afleitu leið að ástæðulausu. Snúa verður af þessari braut sem fyrst og vinda ofan af fyrri mistökum.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði