Það fór allt á hliðina í sam­fé­laginu í byrjun nóvember þegar kviku­gangur upp­götvaðist undir Grinda­vík í kjöl­far langrar jarð­skjálfta­hrinu. Bærinn var rýmdur í flýti, nánast í skjóli nætur, at­vinnu­starf­semi stöðvuð og í­búar fengu ekki að vitja eigna sinna í marga daga og hafa verið á ver­gangi síðan.

Fjöl­miðlar hafa keppst við að flytja ham­fara­fréttir af stöðunni, rætt við hvern jarð­fræðinginn á fætur öðrum og þeir sem eru hvað dramatískastir fá flestar fyrir­sagnir og mesta plássið. Upp­lýsinga­fundir al­manna­varna voru dregnir aftur á flot og við fórum að sjá brúna­þungan Víði segja okkur frá mögu­legum ham­förum fram­undan og að við eigum að passa okkur, eins og á tímum CO­VID, fólki sem elskar ringul­reið og ó­á­þreifan­legt hættu­á­stand til upp­lyftingar.

Stóra spurningin er hvort smellirnir á ham­fara­fréttirnar, sem eru stór­lega ýktar, séu þess virði að bregða fæti fyrir eina stærstu út­flutnings­grein okkar Ís­lendinga

Þessar ógn­vekjandi fréttir hafa farið eins og eldur í sinu um er­lenda fjöl­miðla og á­standið virst stig­magnast við hverja fréttina. Frétta­flutningurinn er á þá leið að eld­gos sé hafið og fólki hefur verið ráðið frá ferðum til Ís­lands. Þessi tónn hefur orðið til þess að bæði Play og Icelandair hafa þurft að fella úr gildi af­komu­spár fyrir fjórðunginn vegna breytinga á bókunar­stöðu. Önnur fyrir­tæki í ferða­þjónustu hafa orðið á­þreifan­lega vör við af­bókanir og fækkun ferða­manna. Allt hefur þetta á­hrif á störf fólks og af­komu þess.

Það er á­nægju­legt að Grinda­vík er farin að glæðast lífi aftur þó skemmdirnar séu miklar og langan tíma muni taka að byggja bæinn upp. At­vinnu­lífið er farið aftur af stað og í­búar mega vitja heimili­a sinna yfir daginn. En stóra spurningin er hvort smellirnir á ham­fara­fréttirnar, sem eru stór­lega ýktar, séu þess virði að bregða fæti fyrir eina stærstu út­flutnings­grein okkar Ís­lendinga og þar með leggja af­komu fjölda fólks og fyrir­tækja í hættu?