Ísland er meðal þeirra ríkja sem hafa sett sér háleitustu markmið í heimi þegar kemur að loftslagsmálum. Auk þess að fylgja öðrum Evrópuríkjum að málum þá setti ríkisstjórnin sér enn háleitari markmið.

Sjálfstæð markmið Íslands eru:

  • kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.
  • Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.
  • 55% samdráttur í losun á beina ábyrgð Íslands fyrir 2030.

Þessi markmið og áskoranirnar sem þeim fylgja eru ekkert smáræði. Við verðum að hafa hraðar hendur ef við ætlum okkur að ná þeim. Til þess að ná 55% markmiðinu verðum við að draga saman losun um 1,3 milljónir tonna fyrir 2030. Meginþorri þeirrar losunar er í samgöngum á landi. Við verðum því að hlaupa á ógnarhraða í grænu orkuskiptunum og öðrum aðgerðum til að ná þessu markmiði.

Grænbókin um stöðuna í orkumálum með tilliti til loftslagsmarkmiða stjórnvalda kom út fyrir tæpu ári síðan. Hún breytti að ákveðnu leyti umræðunni um loftlagsmálin. Niðurstaða skýrslunnar var á þann veg að við þyrftum að tvöfalda græna raforkuframleiðslu landsins ef við ætlum okkur að ná fullum orkuskiptum og á sama tíma viðhalda góðum lífskjörum og hagvexti.

Áttum okkur á stærðunum

Uppsett afl virkjana á Íslandi er tæplega 3.000 megawött. Til þess að ná fullum orkuskiptum þurfum við því a.m.k um 3.000 til viðbótar við það sem nú þegar er framleitt.

Umræðan um mismunandi orkukosti hefur aukist undanfarna mánuði. Þekking almennings er meiri, en einnig styttist í að starfshópur um nýtingu vindorku skili niðurstöðum sínum.

Stöðvarhús Fljótsdalsstöð
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Á stuttum tíma hafa margir myndað sér skoðun á nýtingu vindorku. Það má búast við því að enn fleiri myndi sér skoðun á henni á næstu mánuðum. Þeir sem töldu áður að vindmyllur yrðu helsta verkfærið í grænu orkuskiptunum hafa nú margir skipt alfarið um skoðun.

Í þessari umræðu er mikilvægt að við áttum okkur á stærðunum sem um ræðir.

Við stigum stórt skref við samþykkt þriðja áfanga rammaáætlunar síðasta vor. Þá voru 214 MW sett í nýtingarflokk í vatnsafli, 220 MW í vindorku og 865 MW í jarðvarma. Áform um framkvæmdir í jarðvarma fara fyrst og fremst í að anna aukinni eftirspurn eftir heitu vatni til húshitunar og þar eru mjög stór viðfangsefni.

Stærsta vatnsaflsvirkjun landsins er Fljótsdalsstöð, oftast nefnd Kárahnjúkavirkjun. Uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar er 690 MW. Það má öllum vera ljóst að það eru engin teikn á lofti um slíkar framkvæmdir á næstu áratugum.

Einu framkvæmdirnar sem ákveðið hefur verið að fara í og mögulega muni komast í notkun fyrir árið 2030 er nýting vatnsafls í Hvammsvirkjun og nýting vindorku í Búrfellslundi. Uppsett afl Hvammsvirkjunar er tæplega 100 MW. Gert er ráð fyrir að við þurfum um 650MW fyrir 2030 en um að minnsta kosti 3000MW fyrir árið 2040. Þá erum við að tala um uppsett afl sem er hámarksafl en nýtingin er mismunandi eftir orkukostum. Langtum meiri en í vatnsafli og jarðvarma en vindorku.

Það liggur í augum uppi að erfitt verður að ná samfélagslegri sátt um að virkja 30 vatnsaflsvirkjanir á stærð við og Hvammsvirkjun á næstu árum. Það er ljóst að við munum þurfa að nýta allar þær aðferðir sem við getum til þess að ná settum markmiðum um full orkuskipti og kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Hafa skal í huga að ákveðið hefur verið að stækka virkjanir um 190 MW og vonir standa til um að bætt orkunýting skili 120 MW en það breytir ekki því að það þarf meiri græna orku.

Stór skref þegar stigin

Á síðasta ári stigum við mikilvæg skref í loftslagsmálum. Við kláruðum eins og áður segir þriðja áfanga rammaáætlunar og rufum þar með níu ára kyrrstöðu í orkumálum á Íslandi.

Við kláruðum aflaukningarfrumvarpið sem heimilar stækkun núverandi virkjana í rekstri án þess að slík framkvæmd þurfi að fara í gegnum ferli rammaáætlunar. Nú þarf einungis að fara í gegnum umhverfismat.

Markmið endurskipulagningarinnar eru margþætt en fyrst og fremst að skipulagið þjóni verkefninu sem er fram undan.

Þá einfölduðum við styrkjaumhverfi vegna umhverfisvænnar húshitunar á köldum svæðum og veittum rúmlega milljarð í styrki til orkuskiptaverkefna í gegnum Orkusjóð.

Áherslu hefur verið lögð á jarðhitaleit og notkun en þar hefur lítið gerst á undanförnum áratugum og sjást þess merki bæði á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar. Þar er mikið verk að vinna.

Við endurskipulögðum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og á dögunum tilkynntum við um endurskipulagningu stofnanakerfis ráðuneytisins. Allt var þetta gert með það fyrir augum að vera betur í stakk búin að ná þessum gífurlega háleitu markmiðum. Markmið endurskipulagningarinnar eru margþætt en fyrst og fremst að skipulagið þjóni verkefninu sem er fram undan.

Hringrásarmálin voru tekin fastari tökum svo eitthvað sé nefnt.

Allt hefur þetta verið klárað á fyrstu 14 mánuðunum frá því að umhverfis-, orku- og loftslagsmál voru sameinuð í nýju ráðuneyti. Við megum vera stolt af árangrinum en betur má þó ef duga skal.

Samstarf stjórnvalda og atvinnulífs

Síðastliðið haust settu stjórnvöld á fót teymi sem nú vinnur náið með atvinnulífinu að skilgreiningu, undirbúningi og innleiðingu áfangaskiptra losunarmarkmiða fyrir hvern geira atvinnulífsins. Verkefnið nefnist Loftslagsvegvísar atvinnulífsins og vinnan felur í sér markmiðasetningu og tillögur að aðgerðum sem geta dregið úr losun frá hverri og einni atvinnugrein.

Vinnan er unnin á forsendum atvinnugreinanna og af einstaklingum og sérfræðingum innan þeirra geira. Það er augljóst að þessi vinna er afar mikilvægur þáttur í því að Ísland nái settum markmiðum í loftslagsmálum. Við munum ekki ná þeim árangri sem við ætlum okkur ef allir lykilaðilar vinna ekki saman. Í kjölfar þessarar vinnu verður aðgerðaáætlun stjórnvalda svo uppfærð.

Kjarkur og þor

Á Íslandi hefur alla tíð verið næg orka. Landið er staðsett á flekaskilum og því fylgja jarðhiti, jarðhræringar og eldgos. Í aldaraðir notuðum við Íslendingar eldinn, hesta, eigið vöðvaafl, segl á bátum og jarðhita í smáum stíl til þess að létta okkur vinnuna. Fyrir hundrað árum varð breyting þar á. Þeir sem á undan okkur gengu höfðu kjark og þor til þess að nýta jarðhita og vatnsafl til þess að annars vegar rafvæða heimili og iðnað í landinu og hins vegar til þess að nýta jarðhitann til húshitunar.

Mikilvægasta verkefni okkar Íslendinga næstu áratugina eru þriðju orkuskiptin.

Margir telja það sjálfsagt að um 90% húsa á Íslandi séu hituð upp með jarðhita. Jarðhitavæðingin á síðustu öld var síður en svo sjálfsagt skref. Taka þurfti pólitískan slag um þessi mál þar sem margir töldu öruggara að nýta þekkta orkugjafa á borð við gas. Það er mikið gæfuspor á tímum sem þessum, þegar verð á gasi rýkur upp úr öllu valdi, að hús stöðvarstjórans á Hlemmi sé það eina sem eftir stendur af gömlu gasstöðinni sem var starfrækt í hálfa öld.

Þriðju og mikilvægustu orkuskiptin

Mikilvægasta verkefni okkar Íslendinga næstu áratugina eru þriðju orkuskiptin. Við erum í kjörstöðu fyrir þriðju orkuskiptin vegna hugrekkis þeirra sem á undan okkur gengu. Við þurfum að tvöfalda raforkuframleiðsluna okkar en heimurinn þarf að áttfalda hana. Það þarf margt að falla með okkur til þess að þessi markmið náist en það má öllum vera ljóst að ávinningurinn af því að ná fullum orkuskiptum mun ná til samfélagsins alls. Útflutningur á grænum lausnum og grænu hugviti mun aukast og Ísland verður í fararbroddi á heimsvísu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Efasemdarmenn síðustu aldar höfðu ýmislegt til síns máls í umræðu um nýtingu jarðhita. Auðvelda leiðin hefði verið að halda áfram í gasinu. Gasið var þekkt stærð og áhættan var minni. Þetta var dýrt skref en borgaði sig að lokum.

Sama staða er uppi núna. Áskoranirnar eru fjölmargar og ákvarðanirnar á leiðinni verða erfiðar. En ef við höfum hugrekki og þor til þess að taka erfiðu ákvarðanirnar og stíga stóru skrefin í átt að fullum orkuskiptum þá verður það stærsta heillaspor Íslandssögunnar.

Greinin birtist í sérblaðinu Viðskiptaþing - Er framtíðin orkulaus eða orkulausnir, sem kom út fimmtudaginn 9. febrúar.