Allir virðast vera að tala um sjálfbærni þessa dagana. Sjálfbærni, kolefnisjöfnun, hringrásarhagkerfi – samtalið í kringum öll þessi hugtök snýst um að gera samfélag framtíðarinnar ábyrgara og umhverfisvænna. Þau eiga það líka öll sameiginlegt að þau setja ábyrgð atvinnulífsins, fyrirtækja og stofnana, í forgrunninn – í stað þess að gera neysluvenjur einstaklinga að þungamiðju umræðunnar.

Sjálfbær lífæð – langlíft samfélag

Atvinnulífið í heild sinni er óumdeilanlega lífæð samfélagsins – og það er einmitt þess vegna sem ábyrgð fyrirtækja og stofnana er mikil. Ef atvinnulífið er lífæð þá eru ósjálfbærir starfshættir eins og hægvinn æðakölkun, lífstílssjúkdómur sem á eftir að koma í bakið á okkur fyrr en um síðir. Sjálfbært atvinnulíf er lykillinn að samfélagslegu langlífi, og atvinnurekendur verða að vera meðvituð um það.

Og þó verður ekki hlaupið að því að útbúa einhverja algilda sjálfbærnilausn sem á jafn vel við um öll fyrirtæki landsins. Þarfir hvers og eins geira eru mismunandi – og þess vegna er mikilvægt að hefja sjálfbæru vegferðina á því að spyrja réttu spurninganna:

  • Hver er staðan?
  • Hvað þarf að breytast?
  • Hvað getum við eiginlega gert?
  • Hvaða markmið viljum við setja okkur?

Stafræn sjálfbærni

Hugsum málið nánar og tökum stafræn þjónustu- og hugbúnaðarfyrirtæki sem dæmi – því það er geirinn sem ég þekki best. Hvað getum við gert til þess að auka sjálfbærni? Nú, til að byrja með getum við bara haldið áfram að vinna vinnuna okkar. Það er augljóst að stafræn lausn sem eykur hagkvæmni, sparar flutning milli staða og tilheyrandi vinnuafl stuðlar að sjálfbærni. Það sparar orku og tíma. Einfalt, ekki satt?

En það er ekki allt og sumt. Við getum gengið lengra og stuðlað enn betur að sjálfbærni með því að huga sérstaklega að orkusparnaði í tæknilegum útfærslum. Í fyrsta lagi er góð hönnun gulli betri þegar kemur að því að spara tíma og orku notenda á netinu. Þess að auki er mikilvægt að besta kerfi þannig að niðurhali sé haldið í lágmarki og hýsingaraðilar noti minni orku – eins og að tryggja að gögn séu ekki matreidd aftur og aftur við hverja heimsókn á vef.

Styrk stjórn með sjálfbærni að leiðarljósi er alltaf mikilvæg í hugbúnaðarverkefnum, því það má yfirleitt minnka orku- og vinnuaflsnotkun í útfærslu verkefna í núinu og til framtíðar. Þannig geta fyrirtæki sem framleiða hugbúnað og stafrænar lausnir ýtt viðskiptavinum sínum í átt að því að nota græna hýsingu þegar því verður við komið.

Sjálfbærni og jafnrétti

Þá hefur líka verið sýnt fram á að stafrænar lausnir stuðli að jafnræði þar sem mannleg hlutdrægni (e. bias) er útilokuð, eins og þegar hugbúnaður sér um þjónustu og rafrænar uppflettingar upplýsinga sem áður þurfti handvirkt og oft með hlutdrægni að afla. Þetta og fleira stuðlar að hagræðingu og samfélagslegri jöfnun sem getur skilað sér fyrir samfélagið í heild sinni, þar sem fjármagn og tími geta verið nýtt annarsstaðar.

Þegar kemur að því að bæta bein áhrif stafrænna fyrirtækja á umhverfið getur markmiðið svo verið að huga að umhverfinu í innkaupum, lágmarka neyslu og sóun við val á vörum, þjónustu og birgjum. Einnig getur innleiðing á ýmsum snjalllausnum á tækjum tengdu húsnæði gert okkur kleift að besta orkunotkun t.d. sjálfvirkar lausnir í kyndingu út frá veðurspá eða aðrar snjalllausnir sem hafa náð vinsældum sem um betri nýtingu á rafmagnsnotkun.

Til að gera enn betur mætti svo til dæmis bæta aðra almenna stjórnenda- og rekstrarhætti eins og að skapa vinnustaði þar sem kynjafjölbreytni og jöfn kjör óháð kyni fyrir sömu störf eru sett í fókus. Rannsóknir sýna að baráttan fyrir jafnrétti er nátengd baráttunni fyrir sjálfbærni og umhverfisvernd – sem þýðir að skref í átt að auknu jafnrétti á vinnustöðum er skref í átt að aukinni sjálfbærni í atvinnulífinu. Þar fyrir utan eru notendur á tækni einnig fjölbreyttur hópur því eðlilegast að tæknin sé þróuð af jafn fjölbreyttum hópi.

Það er mikilvægt að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð og séu til fyrirmyndar fyrir starfsmenn, viðskiptavini og umheiminn. Það er okkar reynsla að hnitmiðuð skref í átt að sjálfbærri vegferð í rekstri og þjónustu skili sér í betri, afkastameiri og fallegri vöru. Við trúum því að góð hönnun og tækni geti einfalda og bætt lífið. Einfalt líf er sjálfbært líf.