Hrafnarnir fóru nánast yfir um af spenningi þegar þeir komust í kolefnishlutleysisskýrslu Íslandsbanka í vikunni.

Í henni kemur fram að Birna Einarsdóttir og hennar fólk stefna að því að minnka kol­efn­is­spor af lána­safni bank­ans um 60% fyr­ir árið 2030. Hröfnunum þykir þetta áhugavert markmið ekki síst í ljósi þess að Íslandsbanki lék lykilhlutverk í endurreisn Icelandair árið 2020 þegar flugfélagið rambaði á barmi gjaldþrots vegna heimsfaraldursins bæði hvað fjármögnun og útboð nýrra hluta varðar. Eins og fram kemur á ágætum vef Samtaka Iðnaðarins um orkuskipti þá standa flugvélar fyrir ríflega helmingi af allri notkun á jarðefnaeldsneyti hér á landi. Hrafnarnir eru eðli málsins samkvæmt hlynntir flugsamgöngum til og frá landinu en þó að þeir stundi kolefnishlutlaust flug hafa þeir áhyggjur af því að þessi grænþvottur kunni að hamla nauðsynlegum samgöngum.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 27. október.