Sennilega þekkjum við öll týpuna sem gleðst eiginlega meira þegar United tapar en þegar liðinu sem hún heldur með gengur vel. Stundum hvarflar að manni að þessi manngerð hafi í æsku étið alla grænu hlaupkallana úr nammiskálinni, þótt henni þættu þeir gulu bestir, bara til að systkinið sem elskaði grænu kallana fengi þá ekki.

Sennilega þekkjum við öll týpuna sem gleðst eiginlega meira þegar United tapar en þegar liðinu sem hún heldur með gengur vel. Stundum hvarflar að manni að þessi manngerð hafi í æsku étið alla grænu hlaupkallana úr nammiskálinni, þótt henni þættu þeir gulu bestir, bara til að systkinið sem elskaði grænu kallana fengi þá ekki.

Flestum finnst þessi hegðun væntanlega asnaleg en hafa ekki miklar áhyggjur af því þótt stöku börn og aðrir minna þroskaðir fótboltaáhugamenn láti eftir sér að vera svona minniháttar.

Þá bresta á forsetakosningar og þessum týpum fjölgar skyndilega í umræðunni. Auðvitað eiga ekki allir sinn óskakandidat í embætti forseta og líður kannski eins og þetta verði hvort sem er alltaf hálfgert hrakval. Svo eru aðrir sem í raun líst best á einhvern einn en eru svo heitir í andstöðu sinni við aðra frambjóðendur að þeir eru tilbúnir að færa atkvæði sitt yfir á hvern þann sem þeir telja líklegri til að eiga möguleika í kosningunni gegn þeim sem þeir vilja síst og nota hvert tækifæri til að skamma fólk sem deilir ekki þessari skoðun þeirra.

Þessi ráðstöfun kosningaréttarins er vissulega ein hliðin á því sem stjórnmálafræðingar kalla strategíska kosningu, en hún er ekki mjög jákvæð og hlýtur alltaf að vera ákveðin rúlletta, sérstaklega nú þegar munur á milli efstu frambjóðenda í könnunum er sáralítill.

Við erum sem betur fer enn svo heppin að hæft fólk gefur kost á sér í þetta embætti. Stendur eitt frammi fyrir þjóðinni, misvant að vera til umfjöllunar í öllum miðlum og á öllum kaffistofum, eða eins og einn fyrrverandi forsetaframbjóðandi lýsti því, að honum hefði liðið eins og hann gengi nakinn um bæinn. Eitthvert þeirra verður forseti. Vonandi það sem flestum líst best á.