Eftir að hafa flakkað lengi á milli hárgreiðslustofa hef ég fundið minn stað á Greiðunni í Miðbæ við Háaleitisbraut. Þó að stofan sé bæði í leiðinni fyrir mig og þangað geti ég mætt án tímapöntunar eru það ekki helstu ástæður þess að ég fer þangað. Á Greiðunni vinnur nefnilega hann Örvar sem áður hét Ahmad og kom til Íslands árið 2017 sem sýrlenskur flóttamaður ásamt fjölskyldu sinni.
Örvar hefur unnið sem rakari í 19 ár eða frá því hann var 11 ára og á þeim tíma byggt upp færni sem allir sem sest hafa í stólinn hans geta vottað: hversu ótrúlega snöggur hann er að klippa á manni hárið og gera það vel. 6-7 mínútur í mínu tilviki.
Besta er svo að Örvar rukkar mig sama verð og ég þyrfti að borga annars staðar þrátt fyrir að vera a.m.k. fjórum sinnum sneggri. Hann er nú einu sinni að rukka mig fyrir klippinguna en ekki tímann sem hún tekur.
Útseld tímavinna er nefnilega eitt versta fyrirkomulag viðskiptasambands sem hægt er að setja upp og fyrir því eru fimm ástæður:
- Það setur áhersluna á vinnuframlagið og umsvifin á meðan ég sem kaupandi vil borga fyrir afraksturinn.
- Það refsar fyrirtækjum fyrir að byggja upp reynslu eða efla nýsköpun til að vera sneggri að leysa málin.
- Það setur þak á hversu miklar tekjur hver starfsmaður getur aflað.
- Það upphefur „brjálað að gera" kúltúrinn en ekki kúltur árangurs.
- Gerir hæfileika og þekkingu starfsmanna að hrávöru sem eingöngu er mæld í tíma og dregur þannig úr getu fyrirtækja að skapa sér aðgreiningu.
Þetta allt saman og meira til vita Örvar og viðskiptavinir hans á Greiðunni. Þess vegna er alltaf nóg að gera og ég mæti alltaf aftur.
Höfundur er samskiptasérfræðingur.