Það er stundum haft á orði að allar stofnanir ríkisins séu orðnar yfirfullar af almannatenglum og samskiptastjórum sem svo sjá um að spinna þræði og tromma upp stuðning og stemningu fyrir einhverjum áhugamálum viðkomandi stofnunar.

Það er stundum haft á orði að allar stofnanir ríkisins séu orðnar yfirfullar af almannatenglum og samskiptastjórum sem svo sjá um að spinna þræði og tromma upp stuðning og stemningu fyrir einhverjum áhugamálum viðkomandi stofnunar.

Það er vissulega rétt að opinberar stofnanir eru yfirfullar af slíku fólki. Þetta er hluti af þróun sem staðið hefur yfir um áratugaskeið og er fyrst og fremst birtingarform ofþenslu opinbera geirans á kostnað skattgreiðenda. Áhrif þessara starfsmanna á umræðuna eru sáralítil enda virðast störf þeirra ganga út á að senda út einstaka fréttatilkynningu fyrir hönd ráðuneytis eða stofnunar og síðan ekki söguna meir.

***

Að þessu sögðu er full ástæða til þess að benda á mikilvæga undantekningu í þessu samhengi. Hana er að finna í fjármálaráðuneytinu.

Upp á síðkastið hefur borið á því að starfsmenn ráðuneytisins, að minnsta kosti þeir sem koma að því að miðla upplýsingum, líti á sig sem einhvers konar greiningardeild eða fréttaveitu um efnahagsmál.

Sem kunnugt er þá hefur staða ferðaþjónustunnar verið í umræðunni að undanförnu. Óhætt er að segja að blikur séu á lofti yfir þessari mikilvægu atvinnugrein. Það sem af er ári hefur fjöldi ferðamanna verið undir spám Ferðamálastofu og Isavia svo dæmi séu tekin og sterkar vísbendingar eru um að hátt raungengi krónunnar sé bæði að draga úr áhuga á að heimsækja landið sem og að hafa áhrif á neyslu þeirra sem hingað koma.

Fjallað var um stöðuna í Viðskiptablaðinu í síðustu viku og þá staðreynd að bókunarstaða fjölmargra hótela er nú umtalsvert lakari en á sama tíma í fyrra. Rétt er að taka fram að Viðskiptablaðið hefur ekki eitt fjölmiðla fjallað um stöðuna. Samt sem áður birti fjármálaráðuneytið upp úr þurru „frétt“ á vefsíðu sinni síðastliðinn föstudag um að allt sé í himnalagi í ferðaþjónustunni – fullt af ferðamönnum hafi heimsótt landið í fyrra, ekkert sé að marka tölur um kortaveltu og að eitthvert sænskt ráðgjafarfyrirtæki sýni að bókunarstaða hótela í Reykjavík sé með miklum ágætum.

Athygli vekur að hér er ekki að ræða álit fjármálaráðherra heldur bara fréttatilkynningu þar sem starfsmenn ráðuneytisins bregða sér í spor Megasar og Tolla og bæta bölið með því að benda á eitthvað annað. Væntanlega segir ráðuneytið okkur bráðlega frá því að ástandið í Póllandi fari hríðversnandi dag frá degi og horfur fari versnandi á Volgubökkum. Það sé þvert á málflutning talsmanna ferðaþjónustunnar.

***

Annað nýlegt dæmi um tilraunir starfsmanna fjármálaráðuneytisins til að reyna kasta ryki í augu landsmanna má finna á heimasíðu ráðuneytisins í apríl. Þá hafði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáð því að afkoma hins opinbera yrði umtalsvert verri en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029.

Þá birtist frétt á heimasíðu ráðuneytisins um að þetta væri allt saman tómur misskilningur hjá sérfræðingum sjóðsins og að afkoman myndi ekki verða svo slæm þar sem sjóðurinn taki ekki „mið af ótilgreindum tekju- og útgjaldaráðstöfunum, líkt og óútfærðum afkomubætandi ráðstöfunum“. Með öðrum orðum eru embættismenn ráðuneytisins að segja að sérfræðingar sjóðsins taki ekki tillit til þess sem ekkert liggur fyrir um að raungerist.

Rétt er að taka fram að sérfræðingar ráðuneytisins fengu í kjölfarið vafalaust tækifæri til þess að útskýra þetta fyrir sérfræðingum sjóðsins þegar sendinefnd hans var í reglubundinni úttekt á landanum. Ekki hefur það breytt miklu um mat AGS á stöðu mála hér á landi. Meginniðurstaða þeirrar heimsóknar var að frekari að­gerða er þörf til að ná fram því að­haldi sem fyrir­hugað er til meðal­langs tíma. Sendi­nefndin bendir einnig ríkis­stjórninni á að ó­fyrir­séð út­gjöld í að­draganda þing­kosninga á næsta ári muni ýta undir verð­bólgu.

***

"Lífskjör á Reykjanesi yrðu ekki söm ef orkuverið í Svartsengi færi undir hraun“. Þetta hafði Ríkisútvarpið eftir Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni Almannavarna, í hádegisfréttum á mánudag.

Það er óneitanlega sérstakt að það sé vafamál í hugum fólks að það hefði töluverð áhrif á „lífskjör á Reykjanesi“ ef íbúar á skaganum hefðu hvorki aðgengi að rafmagni né heitu vatni. Enn skrýtnara er að leitað sé til lögreglumanns til að taka af allan vafa um að það yrði slæmt fyrir Reyknesinga ef þeir hefðu ekki aðgang að rafmagni og heitu vatni.

Að því sögðu má benda á að fjölmiðlar hafa fjallað furðulítið um áhrif þess ef allt fer á versta veg vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi og hversu ótryggt orkuöryggi er í landinu. Ástandið leiðir hugann að því hversu óskiljanlegar tafirnar á lagningu Suðurnesjalínu 2 hafa verið.

Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að línan yrði tilbúin til notkunar árið 2016 en látlausar deilur um lagningu hennar töfðu framkvæmdir. Landsnet telur fórnarkostnað tafanna hlaupa á nokkrum milljörðum á ári. Ljóst er að þær verða mun dýrkeyptari ef orkuframleiðsla á svæðinu fer úr skorðum vegna eldsumbrota. Sem betur fer fékkst loks framkvæmdaleyfi fyrir lagningu línunnar í sumar. Það leyfi breytir auðvitað engu gagnvart þeim hættum sem Íslendingar standa frammi fyrir núna.

Síðan er það heita vatnið og orkuverið í Svartsengi sem verður að teljast í mikilli hættu fari allt á versta veg vegna þeirrar hættu sem nú steðjar að. Þrátt fyrir augljósa notkun á borð við húshitun á Reykjanesi skiptir starfsemin þar gríðarlega miklu máli fyrir stór landeldisfyrirtæki á svæðinu svo einhver dæmi séu nefnd. Væntanlega er einnig erfitt að halda alþjóðaflugvelli opnum án heits vatns.

***

Steinunn Ólafsdóttir framkvæmdastjóri lenti í kröppum dansi á dögunum. Kolbeinn Tumi Daðason sagði frá honum á Vísi um helgina. Steinunn lenti í því að kolsýrutæki í hennar eigu varð sem andsetið væri og streymdi kolsýru án þess að nokkur fengi rönd við reist. Haft er eftir Steinunni í fréttinni:

Ekki var hægt að skrúfa fyrir streymi kolsýru í harðplastflöskuna sama hvað reynt var. Þegar gerð var tilraun til að losa flöskuna sprakk hún, splundraðist í frumeindir sínar með ægilegum hvelli þannig að íbúar í nærliggjandi húsum hrukku í kút og héldu að byssumaður gengi laus.

Fyrirsögnin á fréttinni var: Soda­stream-flaskan sem sprakk í frum­eindir sínar. Er svo atburðarásinni lýst með sérstaklega nákvæmum hætti sem og tilraunum Steinunnar til að hafa samband við Elko, sem selur tækið, og svo framvegis.

Gallinn við fréttina er aftur á móti að ekki var um Sodastream tæki að ræða heldur um kolsýrutæki frá sænska framleiðandanum Aarke eins og reyndar má sjá af skjáskoti af vefsíðu Elko sem fylgir fréttinni. Þrátt fyrir það er eingöngu talað um Sodastream í fréttinni og það ávallt skrifað með stórum staf rétt eins og þegar um sérheiti er að ræða.

***

Heimildin gerði á dögunum tilkall til þess að birta tilefnislausustu frétt sem hefur birst í íslenskum fjölmiðlum allt frá því að sagt var frá því að Aron Pálmi Ágústsson hitti Wesley Snipes ekki á Vegamótum.
Heimildin sagði frá því að Laufey nokkur Pétursdóttir hefði lent í því í Boston á dögunum að kaffibarþjónn hafi borið fram nafn hennar með réttum hætti. Gefum blaðamanni Heimildarinnar orðið:

Nöfn eru misalgeng og þau eru ekki alltaf jafn auðfæranleg á milli menningarheima. Þetta þekkja margir sem heita séríslenskum nöfnum eins og til dæmis Þórólfur eða Hallgerður. Þegar haldið er til útlanda á slíkt fólk það gjarnan til að mæta gjörsamlegu skilningsleysi þegar það reynir að kynna sig. Það er beðið um endurtekningar, útskýringar á framburði eða jafnvel að nafnið sé stafað ofan í þann sem álpaðist til að spyrja fólkið til nafns.
Þetta þekkir Laufey Pétursdóttir á eigin skinni. Hún er vön því að fólk kalli hana Láfí á ferðalögum og segist oft heita Laura þegar hún heimsækir Bandaríkin til að koma í veg fyrir það að þurfa að stafa nafn sitt ofan í hvumsa kaffibarþjóna.
Laufey Pétursdóttir er vön því að fólk kalli hana Láfí á ferðalögum. Það hefur nú breyst með hækkandi frægðarsól Laufeyjar Lín.
Þegar Laufey, sem var nýverið stödd á ferðalagi í Boston í Bandaríkjunum, ætlaði að panta sér kaffi á kaffihúsi við Harvard-háskóla var röðin nokkuð stutt svo hún ákvað að nota sitt eigið nafn þegar hún pantaði drykkinn.
Henni til mikillar undrunar brást kaffibarþjónninn ekkert sérstaklega við og stuttu síðar var nafn hennar kallað upp með lýtalausum framburði. „Mér fannst það bara mjög gaman en var hissa,“ segir hún
."

Þetta heldur Laufey að megi rekja til Laufeyjar Lín Jónsdóttur tónlistarkonu. En hún hefur öðlast gríðarlega frægð á stuttum tíma. Fyrsta breiðskífa hennar Bewitched hlaut Grammy-verðlaunin í flokki hefðbundinna söng-poppplatna fyrr á þessu ári.“

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í blaðinu sem kom út 26. júní 2024.