Þetta er viðburðarík vika. Á mánudag kynnti ríkisstjórnin sína fyrstu fjármálaáætlun, á þriðjudag kynnti Arion banki hagspá sína og ferðaþjónustuúttekt og á miðvikudag er að vænta tollastríðsyfirlýsinga út leikhúsi fáránleikans í Washington.

Í fjármálaáætlun ráku áhugasamir augun í þrjú áhugaverð atriði um áformað auðlindagjald af ferðaþjónustu.

Í fyrsta lagi er sagt að bæði erlendir ferðamenn og íbúar landsins muni þurfa að greiða gjaldið fyrir aðgang að náttúruperlum landsins. Það er áhugavert að búið sé að festa það á blað að ríkisstjórnin vilji að Jón og Gunna þurfi að kaupa miða fyrir fjölskylduna til að mega skreppa í bíltúr á Þingvelli (auk þess að borga bílastæðagjaldið). Þetta er atriði sem hefur verið slegið í og úr með undanfarin ár og ágætt að það liggi nú fyrir.

Í öðru lagi segir að stefnt sé að gildistöku um mitt ár 2026. Ef loforð um árs fyrirvara á að standa þarf útfærslan að liggja fyrir opinberlega fyrir 1. júní n.k. Ég skil ekki þennan asa. Það skiptir ríkið litlu máli hvort gildistaka verði í júní eða september á næsta ári, eða jafnvel í janúar 2027. Það skiptir meira máli að gefa sér tíma í að gera hlutina almennilega til að byrja með.

Í þriðja lagi er svo sagt að tekjurnar skuli „hjálpa til“ við að byggja upp og vernda ferðamannastaði. Þriðja hver króna sem ferðaþjónusta býr til í gjaldeyristekjur rennur til ríkis og sveitarfélaga sem skattkróna. Það eru því augljósir hagsmunir hins opinbera fólgnir í því að væntar tekjur af auðlindagjöldum af ferðaþjónustu renni fyrst og fremst til verkefna sem nýtast í uppbyggingu og verðmætasköpun í greininni beint - t.d. til gagnaöflunar og rannsókna, markaðssetningar og innviðauppbyggingar á ferðamannastöðum – en ekki bara smá í að „hjálpa til“ við eitt af þessum verkefnum.

Fullkomin óvissa framundan

Síðan stjórnarsáttmálinn var skrifaður hefur alþjóðasamvinnu og efnahagsmálum á Vesturlöndum verið snúið á haus. Fullkomin óvissa ríkir um framhaldið, stöðu Íslands í yfirvofandi tollastríði og áhrif á útflutningsatvinnuvegi.

Í því umhverfi hlýtur að vera eðlilegt að ríkisstjórnin endurmeti hugmyndir í stjórnarsáttmála um skattlagningu á útflutningsatvinnugreinar. Það er einstaklega óskynsamlegt að veikja samkeppnishæfni grunnatvinnugreina innan frá þegar óvissa og hættur steðja að utan frá. Af hverju ættum við að byrja að grafa holuna sjálf þegar skóflum er sveiflað allt í kring um okkur?

Fyrir kosningar var ýmsum tíðrætt um að það þyrfti að „koma böndum á“ ferðaþjónustu því hún væri að vaxa svo hratt. Það þarf ekki annað en að líta til gagna og nýlegra greininga til að sjá að það er einfaldlega ekki staðan.

Hagspá Arion banka gerir til dæmis ráð fyrir að ferðamönnum fækki á árinu. Í ferðaþjónustuúttekt Arion sem bankinn birti samhliða spánni kemur fram að tekjur greinarinnar drógust saman um 2,4% að raunvirði á milli áranna 2023 og 2024 og neysla á hvern erlendan ferðamann hefur dregist saman um 13% að raunvirði frá árinu 2022. Minni neysla og styttri dvalartími þýðir að ferðamenn ferðast ekki jafn langt frá höfuðborgasvæðinu þannig að verðmætin dreifast síður um allt landið.

Þetta er raunstaðan. Á hvað þarf eiginlega að koma böndum? Verðmætasköpun atvinnugreinarinnar og skatttekjur ríkissjóðs? Lífskjaravöxt almennings?

Lágmörkun skaðans

Óvissan í efnahags- og alþjóðamálum framundan bætist nú ofan á þessa stöðu, sem SAF hafa ítrekað varað við en ýmsir í stjórnkerfinu hafa skellt við skollaeyrum.

Staðreyndin er sú að ef stjórnvöld vilja ólm leggja auðlindagjöld á ferðaþjónustu til að „skapa sátt um atvinnugreinina“, þá þarf að tryggja mótvægi til að þau skaði ekki samkeppnishæfni áfangastaðarins um of. Því verða tekjur af skattlagningunni að vera nýttar til að styðja við aukna verðmætasköpun af ferðaþjónustu og þannig auknar skatttekjur ríkisins og áframhaldandi lífskjarasókn fyrir fólkið í landinu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.