Guðfinnur S. Halldórsson, sem rekur Bílasölu Guðfinns og gengur venjulega undir nafniu Guffi, lýsir því í viðtali við bandaríska blaðið New York Times hvernig hann seldi sama Porsche bílinn fimm sinnum á sex mánuðum. Í hvert sinn hækkaði verðið og þar af leiðandi þóknunin til Guffa.
Hann segir við NYT, sem er með heilmikla úttekt á þeim breytingum sem hafa orðið á íslensku samfélagi eftir hrun, að hann hafi selt marga bíla í bólunni en safnað litlu í sjóði. Í staðinn ferðaðist hann mikið, fór á skíði og skemmti vinkonum sínum erlendis. Nefnir hann sérstaklega fallegar konur frá Úkraínu og Sviss, sem hann bauð til Íslands til að sýna þeim landið og skemmta sér.
Barn í dótabúð
„Þú ert eins og barn í dótabúð," segir Guffi við blaðið þegar hann ræðir vinkonur sínar. Þessar boðsferðir hans til Íslands hefðu haft góð áhrif á ferðamannaþjónustuna. En þetta var ekki fyrirhafnarlaust hjá Guffa. Hann vann þrettán tíma á dag og var í raun úrvinda. Sem dæmi nefndir hann alla pappírsvinnuna sem fylgir því að selja bíl á bílalánum.
En bílalánin tóku ekki bara tíma. Það tók Guffa líka tíma að finna vinkonur á veraldarvefnum: „Ég fann stelpur á internetinu, það er mikil vinna. Þú þarft að lesa öll heimsku bréfin sem þær senda."
Fábrotnari lífstíll
Núna hafa tekjurnar dregist saman og lífstíllinn er einfaldari. Fábrotið lífernið fer því vel í Guffa. Hann er ekki eins upptrekktur. „Ég á ekki lengur vinkonur frá Úkraínu eða Sviss. Núna á ég íslenska konu," segir Guðfinnur Halldórsson.
Hægt er að lesa viðtalið við Guffa og fleiri á heimasíðu NY Times.