Á Íslandi bar það hæst til tíðinda að Gunnar Smári Egilsson áhrifavaldur og framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins leysti verðbólguvandann í eitt skipti fyrir öll.

Gunnar skrifar á samfélagsmiðil sinn í morgun: „Verðbólga er ekki vandamál í sjálfu sér. Vandinn er að hækkun verðlags skerðir kaupmátt. Við því er tvennt að gera. Annars vegar að hækka launin til að verja kaupmáttinn. Og hins vegar lækka verðið með verðlagseftirliti og banni við verðhækkunum.“

Hrafnanna setur hljóða við þessi innblásnu skrif Gunnars Smára. Í fyrsta lagi dást þeir að framsetningunni: verðbólga er ekki vandamálið heldur verðlagshækkanir. Þetta er svo sannarlega frumleg nálgun og mótsagnakennd svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Einnig leggur Gunnar til þess að við einfaldlega hækkum laun umfram verðlag hverju sinni og stýrum því síðarnefnda með boði, bönnum og verðlagseftirliti. Eins og allir vita sem hafa lesið eitthvað í hagsögu mannkyns þá er einmitt þetta tvennt sem lagt grunninn að velsæld og efnahagslegum stöðugleika í fremstu ríkjum heims.

Eða ekki.

Eigi að síður hlakka hrafnanna til að heyra Gunnar Smára kynna þessar einföldu og fáguðu lausnir sínar á verðbólguvandanum í morgunútvarpi Rásar 2 og Bylgjunnar á næstu dögum.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.