Það hefur verið einmanalegt við rauða borðið hjá Gunnari Smára Egilssyni, sósíalistaforingja utan þings, á sunnudaginn.
Gunnar Smári er með móðgunargjörnustu mönnum landsins. Nú síðast móðgaðist hann út í Sigríði Hagalín Björnsdóttur sem stýrði Silfrinu á sunnudaginn en átökin innan verkalýðshreyfingarinnar voru á dagskrá þáttarins, eðlilega.
Í færslu á Facebook þótti honum Sigríður Hagalín gjörsamlega fara yfir strikið þegar hún „með vanabundnum fyrirlitningartóni gagnvart hagsmunabaráttu hinna lakar settu“ kallaði róttæka arm verkalýðshreyfingarinnar „þetta fólk“.
Gunnari Smára þótti sem sagt þáttastjórnandinn ekki tala af nægri virðingu um verkalýðsforingjana Ragnar Þór Ingólfsson, Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Vilhjálm Birgisson. Þetta er eðlileg krafa hjá Gunnari Smára enda er virðingin fyrir náunganum í hávegum höfð í ræðu og riti hans og þremenninganna, eða hvað?
Málflutningur Gunnars Smára, og verkalýðsforingjanna þriggja, kristallast síðan fallega í næstu setningu sósíalistaforingjans þar sem hann sagði að „þingmaður Kjöríss“ hefði gripið fram fyrir Lenyu Rún Taha Karim, varaþingmanni Pírata. Hann uppnefndi sem sagt Guðrúnu Hafsteinsdóttur og móðgaðist yfir því að hún hafi gripið fram í í umræðuþætti. Ef hrafnarnir fengju fimm kall fyrir hvert skipti sem Gunnar Smári hefur gripið fram í fyrir einhverjum væru þeir á grænni grein.
Gunnar Smári ítrekaði síðan þá skoðun sína Sjálfstæðisflokknum yrði gefið Silfrið og það sent út frá Valhöll.„Það er til skammar að skattfé launafólks sé varið í þann linnulausa áróður gegn verkalýðs- og réttindabaráttu almennings sem stundaður er í þessum þætti.“
Hrafnarnir vilja benda honum á að eðlileg gagnrýni á verkalýðsforingjana þrjá, sem gengu útaf þingi ASÍ og settu allt í uppnám, er ekki áróður gegn réttindabaráttu almennings. Sólveig Anna og félagar eru bara alls enginn samnefnari fyrir þá baráttu.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 20. október.