Í minningunni gat verið strembið að vinna á fjölmiðli um hásumar. Ég er til dæmis nokkuð viss um að ég hafi oftar en einu sinni skrifað æsifrétt um kal í túnum. Á sumrin ríkir nefnilega venjulega hin svokallaða gúrkutíð, en henni virðist hafa verið frestað í ár - eins og hvalveiðunum.

Þingið var varla farið í frí þegar þær ánægjulegu fréttir bárust að Costco hefði hafið áfengissölu til almennings. Þetta hrærði verulega upp í mannskapnum en stjórnarliðar eru alls ekki sammála um hvernig eigi að haga sölu áfengis. Það eru svo sem ekki nýjar fréttir þótt það hafi orðið uppspretta býsna margra greina og viðtala.

Svo var skipt um dómsmálaráðherra og í kringum það urðu miklar umræður um útlendingamál, þótt ósagt skuli látið hvort það tengist beint skiptunum. Stjórnarflokkarnir hafa líka skiptar skoðanir á þeim, altso útlendingamálunum, og í það minnsta einum þingmanni eins stjórnarflokksins fannst hæfilegt að segja liðsmenn annars stjórnarflokks velta sér upp úr rasískum drullupolli.

Síðasta vika var undirlögð af fréttum um ákvörðun matvælaráðherra um að fresta hvalveiðivertíð fram á haust og viðbrögðum við þeirri ákvörðun. Ráðherrann hefur sætt harðri gagnrýni frá hinum stjórnarflokkunum, ekki síst vegna þess að ákvörðunin var tekin með dags fyrirvara og setti afkomu fyrirtækisins og fjölda starfsmanna í uppnám.

Fyrir helgi birtist svo tilkynning frá Íslandsbanka um rúmlega milljarðs sátt við fjármálaeftirlitið vegna Íslandsbankasölunnar og í byrjun þessarar viku birti Seðlabankinn samkomulagið í heild, sem er mikill áfellisdómur. Þetta mál virðist þó, öfugt við hin, hafa náð að sameina stjórnarflokkana sem urðu sammála um að einhver þyrfti að sæta ábyrgð.

Þetta hefur vissulega gert líf fjölmiðlamanna þægilegra en ég held að þjóðin þurfi að fá að komast í frí frá deilum og stórfréttum. Hvernig er sprettan fyrir austan?