Þann 21. ágúst síðastliðinn tilkynnti norska samkeppniseftirlitið um ákvörðun sína um að leggja háar sektir á þrjár stórar matvörukeðjur í Noregi, þ.e. NorgesGruppen, Coop og Rema 1000 fyrir brot á ákvæði sem samsvarar 10. gr. íslensku samkeppnislaga um ólögmætt samráð.

Fólst brotið í notkun svokallaðra verðveiðara (e. price hunters) til að fylgjast kerfisbundið með verði í verslunum samkeppnisaðila. Að mati norska samkeppniseftirlitsins fól þessi háttsemi í sér ólögmæt upplýsingaskipti sem höfðu hamlandi áhrif á samkeppni.

Málið má rekja til ársins 2010 þegar matvörukeðjurnar fylgdu staðli sem fól í sér reglur um aðgang að verslunum hvers annars til að safna verðupplýsingum. Þessi staðall var síðan útvíkkaður árið 2011 og 2012, og samkvæmt norska samkeppniseftirlitinu gerði hann matvörukeðjunum kleift að safna miklu magni af verðupplýsingum. Vert er að taka fram að norska samkeppniseftirlitið var upplýst um staðalinn á sínum tíma.

Norska samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að ólögmæta samráðið hafi staðið frá janúar 2011 og að minnsta kosti fram í apríl 2018 þegar framkvæmt var óvænt eftirlit. Á þessum tíma jókst samstarfið sem leiddi til þess að matvörukeðjurnar fengu tilkynningar um verð samkeppnisaðila nokkrum sinnum á dag.

Samkvæmt norska samkeppniseftirlitinu hefur fyrirkomulagið leitt til gegnsæis á markaðnum þar sem hvati til að lækka verð hefur minnkað verulega, þar sem samkeppnisaðilar geta fylgt hverri verðlækkun hvors annars svo gott sem samstundis.

Í desember árið 2020 gaf norska samkeppniseftirlitið út andmælaskjal, þar sem fram kom að litið væri á brotið sem markmiðsbrot (e. restriction of competition by object) en þegar um er að ræða markmiðsbrot er ekki gerð sú krafa að samráðið hafi í raun haft hamlandi áhrif á samkeppni.

Í janúar árið 2024 tilkynnti norska samkeppniseftirlitið að rannsókn málsins yrði hætt á þeim grundvelli að um væri að ræða markmiðsbrot og brotið metið út frá því hvort að hið ólögmæta samráð hafi í raun haft samkeppnishamlandi áhrif (e. anticompetitive effects case). Telur norska samkeppniseftirlitið þannig að háttsemin hafi haft neikvæð áhrif á samkeppni.

Nýtt andmælaskjal var gefið út í apríl síðastliðinn. Sektirnar sem nú eru lagðar á eru 200 milljónir evra á NorgesGruppen og 120 milljónir evra til Coop og Rema 1000 hvorrar fyrir sig. Þetta eru langhæstu sektir sem lagðar hafa verið á í samkeppnismáli í Noregi eða samtals sem svarar til rúmum 67 milljörðum íslenskra króna.

Lærdómurinn sem draga má af málinu er sá að fara þarf sérstaklega varlega þegar upplýsingum er safnað um verð hjá samkeppnisaðilum og ekki viðhafa neina samvinnu við þá upplýsingaöflun.

Þó að þetta marki endann á langri rannsókn norska samkeppniseftirlitsins er málinu langt frá því að vera lokið. Allar þrjár matvörukeðjurnar hafa tilkynnt að þær muni áfrýja ákvörðuninni til áfrýjunardómstóls í Noregi.

Höfundur er lögmaður og eigandi hjá LOGOS.

Frá fundinum Samkeppnisréttur á fleygiferð sem LOGOS hélt á Vox Club á Hilton Nordica hóteli.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Halldór Brynjar Halldórsson eigandi og lögmaður á LOGOS, Tómas Aron Viggóson verkefnastjóri og lögmaður á LOGOS, Helga Melkorka Óttarsdóttir eigandi og lögmaður á LOGOS, Gunnar Sturluson eigandi og lögmaður á LOGOS.
© Aðsend mynd (AÐSEND)